Það var endurtekið efni á æfingunni sem haldin var 30. janúar sl. hvað efstu sætin varðar en Óskar Víkingur Davíðsson vann eldri flokkinn og Gunnar Freyr Valsson yngri flokkinn eins og á næstu æfingu á undan. Óskar fékk 5,5v af sex mögulegum og jafnteflinu náði Baltasar í lokaumferðinni. Hann fékk því 4,5v af fimm út úr skákunum og var með dæmi æfingarinnar rétt eins og flestir sem reyndu við það. Dæmið að þessu sinni var peðsendatafl og eins og oft í þeim þá byggðist lausnin á talningu og útreikningum og í þetta sinn þurfti einnig þekkingu á viðureign drottningar við peð sem komið er upp á sjöundu reitaröð. Þegar kom að næstu sætum þá kom frávik frá síðustu æfingu því Batel Goitom Haile var önnur með 5v og þriðji var Baltasar Máni Wedholm Gunnarsson með 4,5v.

 

Yngri flokkinn vann Gunnar Freyr Valsson með 5v af sex mögulegum. Það blés ekki byrlega fyrir Gunnari því í fyrstu umferð þá þá tapaði hann Witbet Haile litlu systur Batel en eftir það komst hann á skrið og vann rest og leysti auk þess dæmið sem lagt var fyrir yngri flokkinn. Dæmið í yngri flokknum var mát í tveimur og það fengu allir rétt fyrir dæmið að þessu sinni þótt flestir hefðu þurft einhverja hjálp til að leysa það. Í öðru sæti var Hans Vignir Gunnarsson með 4v á sinni fyrstu æfingu Síðan komu jöfn með 3,5v Adrian Efraim og Wiktoria Momuntjuk. Adrian var aðeins hærri á stigum og var þriðji eins og á síðustu æfingu..

Í æfingunni tóku þátt: Óskar Víkingur Davíðsson, Batel Goitom Haile, Baltasar Máni Wedholm Gunnarsson, Óttar Örn Bergmann Sigfússon, Stefán Orri Davíðsson, Rayan Sharifa, Einar Dagur Brynjarsson, Brynjar Haraldsson, Andri Hrannar Elvarsson, Nataníel Antonsson og Sigurður Ríkharð Marteinsson, Gunnar Freyr Valsson, Hans Vignir Gunnarsson, Adrian Efraím, Wiktoría Momuntjuk, Zofia Momuntjuk, Witbet Haile,  og Brynjólfur Yan Brynjólfsson.

Næsta æfing verður mánudaginn 6. febrúar 2017 og hefst kl. 17.15. Æfingarnar eru í félagsheimili Hugins í Álfabakka 14a í Mjóddinni. Gengið er inn milli Subway og Fröken Júlíu og salurinn er á þriðju hæð.

Dæmið í eldri flokki á æfingunni:

Hvítur á leik. Í þessu peðsendatafli reynir á hvort þið kunnið að telja að viðbættri smá þekkingu á endatöflum með drottningu á mótti peði. Þegar þið eruð búin að því þá veljið þið þá lausn sem svarar til bestu taflmennsku.

  1. Peðið á h3 er hættulegast svo best er að taka það sem fyrst með 1. Kh4. Þá bindur hvíta h-peðið svarta kónginn svo hægt er að sækja svarta c-peðið og hvítur fær drottningu.
  2. Með 1. Kf5 eða 1. Kf6 stefnir hvítur beint að því að vinna svarta c7 peðið. Á sama tíma mun svartur vinna c7 peðið en hvítur mun vekja upp drottningu á undan og vinna.
  3. Áætlunin í lið II. er eina leiðin en þar er talið vitlaust því svartur er á undan að vekja upp drottningu en hvítur nær að ýta peði sínu upp á sjöundu reitaröð og staðan er jafntefli.
  4. Hér er talningin eins og í lið III. En niðurstaðan er sú að svartur vinni þar sem hann getur alltaf unnið þegar peð er á sjöundu reitaröð. Svartur skákar þangað til hvíti kóngurinn verður að fara undir peðið og leikur þá kóngi sínu nær peðinu. Þetta er endurtekið þangað til kóngurinn er kominn að peðinu og hvítur verður mát skömmu síðar.
  5. Hvítur tapar kapphlaupinu um peðin svo vænlegast er að bíða eftir að svarti kóngurinn drepi peðið á h2 og loka hann þá inn með Kf2. Þar sem svarti kóngurinn sleppur ekki út verður skákin jafntefli með þrátefli eða patt.

Dæmið í yngri flokki á æfingunni.

Hvítur á leik og mátar í tveimur leikjum. Skrifið lausnina á blaðið eða merkið með pílum inn á stöðumyndina með númeri leiksins. Ef það eru fleiri en einn möguleiki á máti þarf að skrifa alla möguleikana eða merkja þá alla inn á stöðumyndina.

 

Að lokum læt ég svo fylgja með eina stöðumynd í viðbót úr dæmahefti sem Smári Teitsson tók saman um mát í tveimur leikjum. Þetta dæmi er líklega fyrir flesta aðeins erfiðara en dæmið á undan en lausnin er flott.

Þegar leitað er að máti í tveimur leikjum er gott að hafa það í hug að í lang flestum tilvikum er byrjað á skák og þannig verður til þvinguð atburðarás. Á þessu geta verið undantekningar en þá er andstæðingurinn í leikþröng eða það varnarlaus að hann er nánast leiklaus.