Þröstur þurfti að hafa verulega fyrir sigrinum gegn Degi Ragnarssyni

Það var hart barist í fjórðu umferð Nóa Síríus-mótsins sem fram fór gærkveldi. Þrír eru efstir og jafnir með 3½ vinning. Það eru Guðmundur Kjartansson (2468), Þröstur Þórhallsson (2414) og Daði Ómarsson (2197).

Guðmundur vann Magnús Örn Úlfarsson (2375) nokkuð örugglega á efsta borðinu. Þröstur þurfti að hafa verulega fyrir sigrinum gegn Degi Ragnarssyni (2276) en það var síðasta skákin til að klárast í hróksendatafli þar sem Þröstur var peði yfir.

Björn Þorfinnsson (2404) tefldi byrjunina bjartsýnislega og fórnaði tveimur peðum fyrir spil eða sprikl eins og sumir vildu meina! Daði nýtti sér það vel og vann skákina eftir að vera búinn að lægja öldurótið. Daði hefur verið í banastuði á mótinu. Hann hefur tekið eina yfirsetu, þar sem hann hlaut hálfan vinning, en svo unnið þrjá afar sterka skákmenn.

Benedikt sýndi úr hverju “strákarnir í taflfélaginu” eru gerðir

Benedikt Jónasson (2208) sýndi mikla yfirvegun þegar hann lagði Jóhann Hjartarson (2540) að velli í hörkuskák. Jóhann sem var með svart jafnaði taflið fljótt og virtist jafnvel vera með aðeins betra. Benedikt tefldi hins vegar vel og gaf sig hvergi. Jóhann teygði sig síðan of langt í vinningstilraunum sínum. Benedikt sýndi hér úr hverju “strákarnir í taflfélaginu” eru gerðir þegar hann á endanum dró stórlaxinn að landi með hárfínni tækni og þolinmæði í löngu endatafli.

Vignir Vatnar Stefánsson (2404) er á mikilli siglingu og vann góðan sigur á Halldóri Grétari Einarssyni (2242). Vignir hefur aðeins lotið í dúk gegn Daða. Jón L. Árnason (2471) er að koma til baka eftir brösótta byrjun og vann nú Örn Leó Jóhannsson (2212) í vel útfærðri skák.

Sigurður Daði og Mikael Jóhann

Vignir Vatnar, Benedikt og Björgvin Jónsson (2340), sem vann Guðmund Halldórsson í fjörlegri skák (2204) eru í 4.-6. sæti með 3 vinninga.

Friðrik Ólafsson (2373) og Lenka Ptácníková (2210) gerðu jafntefli í skák þar sem Friðrik fórnaði liði en kom ekki að tómum kofanum hjá Lenku sem varðist vel og hélt sínu.

 

Fimmta og næstsíðasta umferð fer fram nk. þriðjudagskvöld. Þá mætast meðal annars:

Daði (3½) – Guðmundur G. (3½)
Benedikt (3) – Þröstur (3½)
Jóhann (2½) – Vignir (3)
Jón L. (2½) – Björn (2½)
Jón Viktor (2½) – Guðmundur G. (2½)
Helgi Áss (2½) – Sigurbjörn (2½)
Dagur (2½) – Friðrik (2)

Sjá nánar á Chess-Results.

 

B-flokkur

Hörður Aron Hauksson (1839) er efstur með fullt hús í b-flokki en Birkir Karl Sigurðsson (1851) þurfti að gefa skákina þar sem hann gat ekki teflt. Hann er farinn til Ástralíu til að taka við stöðu ungmennalandsliðsþjálfara. Birkir er engu að síður í 2.-6. sæti með 3 vinninga ásamt Óskari Víkingi Davíðssyni (1840), Agnari Tómasi Möller (1919), Jóni Trausta Harðarsyni (2157) og Alexander Oliver Mai (1837).

 

Í næstsíðustu umferð mætast meðal annars:

Hörður Aron (4) – Jón Trausti (3)
Agnar Tómas (3) – Alexander Oliver (3)
Óskar Víkingur (3) – Stephan Briem (2½)
Sjá nánar á Chess-Results.

 


Myndaalbúm 4. umferðar