Stefán Kristjánsson hlutskarpastur á Nóa Siríus mótinu

Stefán Kristjánsson, stórmeistari (2491), tryggði sér efsta sætið á Nóa Síríus mótinu – Gestamóti GM Hellis og Breiðabliks, með jafntefli í lokaumferðinni við alþjóðlega meistarann Karl Þorsteins (2452) og hlaut þannig 6 vinninga í 7 skákum.  Stefán hafði vinningsforskot á næstu menn fyrir umferðina og bjuggust margir við því að sest yrði á friðarstóla og fljótlega sæst á skiptan hlut. Raunin varð þó öll önnur áhorfendum til mikillar ánægju. Báðir tefldu kapparnir hvasst og kröftuglega frá byrjun svo að úr varð tvísýn og spennandi viðureign sem lauk ekki fyrr en eftir 40 leiki þegar Stefán þráskákaði.

Nóa-Síríusmótið
 

 

P1010355Jafnir í öðru sæti á mótinu urðu FIDE-meistarinn Davíð Kjartansson (2336) og alþjóðlegi meistarinn Björgvin Jónsson (2340) með 5½ vinning. Fjórir kappar deildu með sér næstu sætum með 5 vinninga: alþjóðlegu meistararnir Bragi Þorfinnsson (2454), Jón Viktor Gunnarsson (2412) og Karl Þorsteins (2452) ásamt FIDE-meistaranum Magnúsi Erni Úlfarssyni (2382). Margir öflugir skákmenn voru svo rétt á eftir með 4½ vinning.

Óhætt er að fullyrða að líflega hafi verið teflt á Nóa Síríus P1010348mótinu sem er eitt af öflugustu innlendu mótum sem haldin hafa verið hér á landi. Sérstaklega er ánægjulegt hve margir skáksnillingar sem lítt hafa haft sig frammi í kappskák langa hríð tóku þátt  en annars var aldursdreifingin mjög góð. Teflt var í Stúkunni á Kópavogsvelli. Þar er bjart og notalegt, vel fer um keppendur og  áhorfendur og ekki er amalegt að njóta gómsætra veitinga frá Nóa Síríusi til að skerpa athyglisgáfuna!

P1010334Breiðablik og GM Hellir stefna að áframhaldandi samstarfi um þetta mót sem er skemmtileg viðbót við góða skákflóru á Íslandi. Mikilvæg reynsla fékkst að þessu sinni sem verður nýtt til að gera næsta mót enn betra. Keppendum er þökkuð drengileg framkoma og skemmtileg taflmennska og skákstjórum frábært utanumhald. Síðast en ekki síst vilja aðstandendur mótsins þakka Nóa Síríusi drengilegan stuðning og samskipti sem hafa verið til fyrirmyndar í alla staði.