Páskaeggjamót Hugins í Mjódd fór fram í 26. sinn síðastliðinn mánudag 26.apríl. Mótið var vel skipað með 44 þátttakendum og í raun þrælsterkt. Að þessu sinni var umhugsunartíminn 4 mínútur + 3 sekúndur á hvern leik og umferðirnar voru eins og ævinlega sjö. Eins og og oft áður fengust afgerandi úrslit því í þetta sinn sigraði Vignir Vatnar Stefánsson á mótinu með 6,5 af sjö mögulegum. Jafnteflið kom í lokaumferðinni gegn Stephan Briem í skák sem hefði alveg mátt vera lengri en hafði sennilega ekki mikil áhrif á lokastöðuna. Í öðrum viðureignum var það helst Óskar Víkingur sem var með mótþróa og var ekki langt frá því still upp broddgaltarstöðu sem ekki væri árennileg. Vignir Vatnar náði að plokka nokkra brodda úr stöðunni á drottningarvæng og brjótast þar í gegn og vinna skákina.

Um næstu sæti var tekist á í lokaumferðinni. Fyrir síðustu umferð voru fjórir jafnir með 5v en það voru Óskar Víkingur Davíðsson, Stephan Briem, Örn Alexandersson og Aleksandr Domalchuk-Jonasson, sem er Íslensk-Úkranískur strákur sem dvelur hér um páskana. Hann er meðal sterkustu skákmann í sínum aldursflokki í Úkraínu og hefur greinilega fengið góða þjálfun. Í lokaumferðinni tefli Örn við Magnús Hjaltason og hafði Örn sigur. Á meðan tefldu Aleksandr og Óskar langa baráttuskák, sem var vel tefld þótt seinni hlutinn væri tefldur í stöðugu tímahraki. Aleksandr sem stýrð hvítu mönnunum virtist vera að ná yfirhöndinn í fyrri hluta miðtaflsins en með taktískri brellu, sem fólst í línurofi, tókst Óskari að snúa taflinu sér í vil. Seint í skákinni kom upp endatafl þar sem Óskar var með biskup og riddara og tvö stök peð en Aleksandr með biskup og þrjú stök peð. Þrátt fyrir liðsmuninn var alls ekki auðvelt að vinna þetta peð sem hvítur hafði umfram án þess að svartur tapaði ekki peði sjálfur og lenti kannski út í endatafli með biskup og riddar á móti biskup eða upp kæmi endatafl þar sem svartur þyrfti að máta með biskup og riddara, sem er alls ekki auðvelt með lítinn tíma eftir á klukkunni. Óskari tókst að forðast þetta allt og vinna aukpeðið af hvíti eftir nokkrar hringferðir með mennina um borðið. Eftir það var sigurinn fljótlega í höfn.  Óskar Víkingur og Örn voru því jafnir með 6v en Óskar var hærri á stigum og þvi í öðru sæti og Örn í þriðja sæti á mótinu.

 

Veitt voru verðlaun í þremur flokkum og af þeim voru tveir aldursflokkar. Í elsta aldursflokknum þeirra sem fæddir voru 2002-2004 voru efstir þeir Vignir Vatnar Stefánsson, Stephan Briem og Elfar Ingi Þorsteinsson. Vignir Vatnar var svo einnig sigurvegari mótsins. Í flokki þeirra sem fæddir voru 2005 og síðar voru efstir Óskar Víkingur Davíðsson, Örn Alexandersson og Aleksandr Domalchuk-Jonasson.

Stúlknaverðlaun fengu Batel Goitom Haile, Iðunn Helgadóttir og Elín Lára Jónsdóttir. Þær tefldu á efstu borðum allt mótið og stóðu sig mjög vel og gáfu strákunum ekkert eftir.

Auk þess fékk efsti keppandi í hverjum aldursflokki páskaegg í verðlaun. Ef sá efsti hafði unnið páskaegg í aðalverðlaun fékk sá næsti í aldursflokknum páskaeggið.

Í lokin voru sjö páskaegg dregin út og duttu þar í lukkupottinn þau Daníel Freyr Ófeigsson, Davíð Már Aðalbjörnsson, Brynjólfur Yan Brynjólfsson, Eythan Már Einarsson, Rayan Sharifa, Andri Hrannar Elvarsson og Katrín María Jónsdóttir. Þau sem ekki hlutu verðlaun á mótinu voru svo leyst út með páskaeggi nr. 3 svo enginn færi tómhentur heim. Mótsstjórar voru Alec Elías Sigurðarson, Erla Hlín Hjálmarsdóttir og Vigfús Ó. Vigfússon.

Eftirtaldir hlutu verðlaun á páskaeggjamótinu:

Flokkur 2002-2004:

  1. Vignir Vatnar Stefánsson, 6,5v
  2. Stephan Briem, 5,5v
  3. Elfar Ingi Þorsteinsson, 4v

Flokkur 2005 og yngri:

  1. Óskar Víkingur Davíðsson, 6v
  2. Örn Alexandersson, 6v
  3. Aleksandr Domalchuk-Jonasson, 5v

Stúlkur:

  1. Batel Goitom Haile, 5v
  2. Iðunn Helgadóttir, 4v
  3. Elín Lára Jónsdóttir, 3,5v

 

Árgangaverðlaun:

  • Árgangur 2011: Jósef Omarsson
  • Árgangur 2010: Kjartan Halldór Jónsson (Elín Lára Jónsdóttir)
  • Árgangur 2009: Bjartur Þórisson
  • Árgangur 2008: Tómas Möller
  • Árgangur 2007: Gunnar Erik Guðmundsson (Batel Goitom Haile)
  • Árgangur 2006: Stefán Orri Davíðsson
  • Árgangur 2005: Joshua Davíðsson (Óskar Víkingur Davíðsson)
  • Árgangur 2003: Viktor Már Guðmundsson (Vignir Vatnar Stefánsson)

Lokastaðan á páskaeggjamótinu í chess-results