Þá er vel heppnuðu Nóa Siríus móti 2017 lokið. Alls tóku 72 skákmenn á öllum aldri þátt og hefur mótið aldrei verið sterkara en í ár.

A-flokkur

Daði Ómarsson og Þröstur Þórhallsson eru sigurvegarar í A-flokki hins firna sterka Nóa-Siríus móts sem lauk á þriðjudagskvöldið í Stúkunni við Kópavogsvöll. Þröstur ætlaði sér greinilega sigur gegn Daða í úrslitaskák þeirra tveggja, mætti við alvæpni og brá bitru sverði á loft með óvæntum byrjunarleik. Daði, sem var með svart, lét þó engan bilbug á sér finna. Hann varðist fimlega að hætti Gunnars á Hlíðarenda þó að hann ætti í höggi við einn skæðasta sóknarskákmann landsins og hélt ró þegar mest lá við. Þegar jafntefli var samið var Daði líklega kominn með ögn vænlegra tafl en jafnteflisboð Þrastar kom á réttu andartaki. Með jafntefli þessu tryggðu þeir félagar sér sigur á mótinu með 5 vinningum hvor í sex umferðum. Glæsilega gert hjá þeim báðum. Þó að Daði sæti yfir í einni umferðinni, reyndist hann hærri í stigaútreikningi. Flestir skákmenn vita hvers Daði er megnugur en fáir áttu þó von á slíkri frammistöðu. Meðalstig andstæðinga Daða voru 2.432 og árangur hans mælist 2.798 stig sem er með því allra hæsta sem sést hefur hér á landi á síðustu árum. Þröstur getur einnig vel við unað. Hann tefldi af feiknarlegu öryggi og leyfði einungis tvö jafntefli, hið fyrra við Lenku í annarri umferð, hið seinna gegn Daða í þeirri síðustu, eins og áður sagði.

Á næst efsta borði gerðu lagasnillingarnir Jóhann Hjartarson og Björgvin Jónsson jafntefli í skák sem tefld var í botn. Jóhann virtist jafna taflið með svörtu eftir byrjunina og jafnvel fá aðeins betri stöðu í miðtaflinu. Björgvin tefldi hins vegar vel og undir lokin hafði hann peði meira í hróksendatafli en Jóhann var ekki í vandræðum með að halda jöfnu með virkum kóngi á miðju borði. Björgvin átti ágætt mót, taplaus en gerði jafntefli í fjórum skákum. Jóhann Hjartarson, sem er ríkjandi Íslandsmeistari í kappskák og raunar hraðskák líka, tapaði fyrir Benedikt Jónassyni í fjórðu umferð og missti þar með möguleika á toppsæti. Benedikt fór á kostum í mótinu og það er alltaf gaman að fylgjast með Jóhanni enda sá stórmeistari okkar, auk Friðriks, sem náð hefur lengst á svarthvítu reitunum. Jóhann teflir ávallt ótrauður til sigurs og viðureignir hans einkennast af leikgleði og lítilli lognmollu – baráttu frá upphafi til enda.

Guðmundur Kjartansson sigraði Helga Áss Grétarsson í baráttuskák. Upp kom peðaendatafl þar sem báðir náðu að vekja upp drottningu, Guðmundur þó fyrr og það gerði gæfumuninn eftir að Helga hafði orðið á örlítil ónákvæmni. Mikill fengur að fá Helga að skákborðinu í þessu sterka móti og Guðmundur sýndi og sannaði enn hve þolgóður hann er þegar líða tekur á skákirnar, enda innbyrti hann flesta sína vinninga í endatöflum.

Skák Jóns Viktor Gunnarssonar og Björns Þorfinnssonar var flókin og tvísýn. Jón Viktor fórnaði að lokum manni og náði að leggja stjörnublaðamanninn og félaga sinn hjá TR að velli í tímahraki hins síðarnefnda. Þá lauk Þorsteinn Þorsteinsson ágætu móti með því að gera jafntefli með hvítu við stórmeistarann Jón L. Árnason í 32 leikjum. Skákin einkenndist af átökum um frumkvæðið en jafnvægið var þó ætið innan seilingar. Jón hrifsaði þó til sín peð í drottningarendatafli sem gerði það að verkum að Þorsteinn sá þann kost vænstan að þráskáka. Þorsteinn fór taplaus í gegnum mótið en var lengi í gang. Jón L. var einnig greinilega að komast í gamalkunnan gír eftir brösuga byrjun. Benedikt Jónasson sneri skemmtilega á Vigni Vatnar Stefánsson og Magnús Örn Úlfarsson tefldi vel gegn Halldóri Grétari Einarssyni og hafði sigur með laglegri mannsfórn:

Hvítt: Magnús Örn Úlfarsson
Svart: Halldór Grétar Einarsson

Svartur lék síðast 13. – Bd7-e6?
13. – Hd8 hefði verið svarað með 14.e6! Bxe6 15.Bxc6+ bxc6 16.Rc7+ Kf8 17.Dxd8mát
Skást var 13. – e6 eins og Sigurður Daði lék með góðum árangri í Danaveldi árið 2005.
Hvítur fær þó góð færi fyrir peðið á e5 sem tapast ef hann teflir rétt!

14.Rxe7!
Nú er 14. – Kxe7 svarað með 15.Dd6+ Ke8 16.Bxc6+ bxc6 17.Dxc6+ Ke7 18.Dd6+ Ke8 19.Bg5! og svartur er niðurbrotinn!
14. – b5 15.Rxc6 Dxa4 16.Dd2! og hvítur vann.

Önnur úrslit umferðarinnar má sjá hér.
http://chess-results.com/tnr257789.aspx?lan=1&art=2&rd=6&wi=821

Það var einstakur heiður að fá að hafa Friðrik Ólafsson meðal keppenda. Þó svo að þessi ljúfi baráttumaður sé kominn af léttasta skeiði, á hann enn létt með að stunda þessa göfugu hugarlist. Hann sér flestum lengra og ánægjan skín úr augunum þó svo að úthaldið sé kannski minna en það forðum var.

Þá var sérstaklega gaman að laða aftur að skákborðinu gamla meistara á borð við Jón Hálfdánarson og Björn Halldórsson. Það brá fyrir gömlum töktum hjá hvorum tveggja og þó svo að stríðsgæfan hafi kannski ekki fallið þeim í skaut í stöku umferð, er ljóst að báðir eiga fullt erindi í svona sterkt mót, þrátt fyrir áratuga langa fjarveru frá kappsskák. Er það von mótshaldara að þeir færist í aukana á hvítum reitum og svörtum í kjölfar mótsins.

Lokastaðan í A-flokki:

Daði Ómarsson og Þröstur Þórhallsson urður jafnir og efstir með 5 vinninga. Í þriðja til fjórða sæti komu TR-ingarnir Guðmundur Kjartansson og Jón Viktor Gunnarsson sem áttu báðir gott mót. Guðmundur, sem er nýbakaður Skákmeistari Reykjavíkur, er greinilega í mjög góðu formi um þessar mundir. Hann tapaði í næstsíðustu umferð fyrir Daða en náði öðru sæti með sigri á Helga Áss Grétarssyni í síðustu umferð. Jón Viktor tók yfirsetu í fyrstu tveimur umferðunum en hlaut þrjá og hálfan vinning úr fjórum tefldum skákum. Sannarlega góður árangur og ljóst að hann hefði mætt Daða ef sjöundu umferð hefði verið til að dreifa.

Lokastöðu má sjá hér:
http://chess-results.com/tnr257789.aspx?lan=1&art=1&rd=6&wi=821

B-flokkur

Lokaumferðin í B-flokki var æsispennandi. Svo fór að lokum að félagarnir úr Fjölni, Hörður Aron Hauksson og Jón Trausti Harðarson urðu efstir og jafnir með 5 vinninga hvor en fast á hæla þeirra í 3. sæti kom Stephan Briem með 4,5 vinninga. Þessir þrír unnu sér þátttökurétt í A flokki að ári.

Úrslit umferðarinnar urðu með þessum hætti:
http://chess-results.com/tnr257788.aspx?lan=1&art=2&rd=6&wi=821

Lokastaða í B-flokki
http://chess-results.com/tnr257788.aspx?lan=1&art=1&rd=6&wi=821

Aðstandendur mótsins, Skákfélagið Huginn og Skákdeild Breiðabliks, þakka boðsgestum þátttökuna, ljúfa samveru og snjöll tilþrif. Eins og þátttökulistinn ber með sér, er greinileg spurn eftir móti sem þessu, móti sem hefur verið þróað frá upphafi og lagað að óskum skákmannanna sjálfra. Skákstjóri var Vigfús Vigfússon sem stjórnaði af sinni alkunnu alúð og vandvirkni og á hann miklar þakkir skildar fyrir gott starf.


Myndaalbúm 6. umferðar