Sigurvegarar: (Fv) Sigurður G Daníelsson, Tómas Veigar Sigurðarson og Hjörleifur Halldórsson
Sigurvegarar: (Fv) Sigurður G Daníelsson, Tómas Veigar Sigurðarson og Hjörleifur Halldórsson

Nú er lokið því mikla og krefjandi verkefni að halda skákmót í fullri lengd fyrir keppendur frá gervöllu Norðurlandi.

Janúarmótinu lauk í dag með pompi og prakt þegar riðlarnir tveir mættust í keppni um endanleg sæti í mótinu, sem einnig var liðakeppni. 16 keppendur tókust í hendur og tefldu tvær kappskákir við liðsmann hins liðsins, raðað eftir nákvæmri röð sem hafði fengist eftir 7 kappskákir þar á undan.

Þeir villtu og trylltu, sem segjast vera að vestann og geta ekki annað, byrjuðu gríðarvel og unnu sínar viðureignir allar á borðum 4-8, sem sagt fimm vinningar fyrir Vestur en þrír fyrir Austur.

Áhugavert er að engri skák lauk með jafntefli í fyrri umferðinni, en Vestanmenn eru sérstakir áhugamenn um einmitt jafntefli – líklega hafa þeir þó samið yfir sig í mótinu sjálfu, enda gerðu þeir 10 jafntefli á meðan Austanmenn létu sér nægja að gera tvö.

jan_playoff_1umf

Þá var komið að seinni umferðinni, sérstaklega vegna þess að hana mátti ekki tefla á undan þeirri fyrri – það hefði nú verið firra.

Helmingur keppenda varð að vinna til að jafna stöðuna og vonast til að gera betur í hraðskák, en væri jafnt eftir kappskákirnar skyldi tefla 2 hraðskákir og eina armageddon skák ef enn yrði jafnt.

Á efsta borðinu gerðu Hjörleifur og Tómas Veigar jafntefli og var þá ljóst að Tómas er sigurvegari mótsins – fékk 8 vinninga af 9 mögulegum í heildina og tapaði ekki skák.

Sam Rees
Sam Rees

Jakob Sævar, Ævar Ákason og Sam Rees áttu það sameiginlegt að hafa tapað fyrri skákinni en unnið þá seinni og þurfti því að tefla hraðskák til úrslita.

Fyrstir tefldu Ævar Ákason og Sigurbjörn Ásmundsson og lauk þeirri glímu með fullnaðarsigri Sigurbjörns.

Því næst tefldu Jakob Sævar og Sigurður G Daníelsson hraðskák til úrslita. Siggi er velþekktur refur í hraðskák og tókst að vinna báðar og tryggja sér þannig 3. sætið í heildarmótinu.

Að lokum var komið að Sam Rees og Jóni Aðalsteini að tefla hraðskák til úrslita. Viðureign þeirra var afar spennandi og fóru leikar þannig að þeir unnu hvor sína hraðskákina. Þurfti því að grípa til bráðabana eða armageddon skákar, en þar dugar svörtum jafntefli til að vinna viðureignina. Sam Rees stýrði svörtu mönnunum og komst í ágætt liðsaflaforskot, en ekki vildi betur til en að ólöglegur leikur birtist á borðinu og tapaði hann því skákinni. Jón stóð því uppi sem sigurvegari viðureignarinnar.

jan_playoff_2umf

2. umferð lauk sem sagt 4 – 4, en það dugði Austanmönnum skammt, því Vestanmenn unnu fyrri umferðina 5 – 3. Villtu trylltu unnu því 9 – 7 þegar öllu hefur verið haldið til haga.

janmot_vidureignir

Lokastaða mótsins er því svofelld:

janmot_lokastaða

Hermann Aðalsteinsson bar hitann og þungann af mótshaldinu og honum til aðstoðar var Tómas Veigar. Keppendum er þökkuð þátttakan, sérstaklega þeim sem hliðruðu til fyrir ferðalöngum – og hinir líka 🙂

Til hamingju Vestanmenn! – Þangað til næst.. 🙂