Eftir þriðju umferð í Meistaramóti Hugins sem fram fór síðasta mánudagskvöld er allt óbreytt og jafn óljóst eins og áður og fjórir efstir og jafnir með 2,5v. Jafntefli á þremur efstu borðum sá til þess þótt þar væri teflt til þrautar eins og í öllum skákum kvöldsins. Á fyrsta borði stýrði Björgvin Víglundsson svörtu mönnunum og reyndi án árangur að knýja Gauta Pál Jónsson til uppgjafar og þrátt fyrir góða viðleitni þá var samið jafntefli um síðir. Á öðru borði reyndi Vignir Vatnar Stefánsson, sem einnig stýrðu svörtu mönnunum,  að þjarma að Óskari Víkingi Davíðssyni en einnig hér héldu varnirnar. Á þriðja borði tefldu Kristján Eðvarðsson og Vigfús Ó. Vigfússon og þar var enginn skotgrafarhernaður heldur skæruhernaður um allt borð og skákin skipti oftar en einu sinni um eiganda. Niðurstaðan var samt bara jafntefli, jafnvel þótt ein drottning hefði fallið í valinn. Á fjórða borði tefldu Ögmundur Kristinsson og Birkir Ísak Jóhannsson og hér lauk öllum samningum því Ögmundur vann sigur í spennandi skák. Eins fengust afgerandi úrslit í öðrum skákum kvöldsins og nánast alltaf hafði hvítur sigur. Sá eini sem stýrði svörtu mönnunum til sigurs þetta kvöld var Jón Eggert Hallsson sem tefldi við Hjálmar Sigurvaldason.

Að lokinni þriðju umferð eru ennþá fjórir skákmenn efstir og að þessu sinni eru þeir með 2,5 vinninga. Það eru eins og áður Páll Þórsson, Óskar Víkingur Davíðsson, Björgvin Víglundsson og Gauti Páll Jónsson. í fjórðu umferð eru margar áhugaverðar viðureignir. Á efstu borðum mætast Björgvin og Óskar Víkingur annars vegar og hins vegar Páll og Gauti Páll. Fjórða umferð fer fram á mánudagskvöldið 1. október og hefst kl. 19.30.

Úrslit 3. umferðar í chess-results.

Pörun 4. umferðar í chess-results.