Hin óteljandi blæbrigði skáklistarinnar leiftruðu eins og norðurljósin í 5. umferð Skákhátíðar MótX. Vel ígrundaðar hernaðaráætlanir, taktískur sveigjanleiki, dramatískt innsæi og hreinræktuð hugsvik – allt blandaðist þetta saman í sætsúrum kokkteil sem áhorfendur sötruðu sér til ánægju á þessu fagra vetrarkvöldi.
Hjörvar Steinn Grétarsson og Baldur Kristinsson.
Hér áttust við Huginskappar tveir, annar margefldur stórmeistari, hinn sívaxandi og bráðefnilegur. Hjörvar lagði línurnar með framrásinni f4-f5. Í framhaldinu greip hann allt rými sem var í boði með skipulegu áhlaupi landgönguliða sinna. Í þrengingum neyddist Baldur til að velja mönnum sínum slæmar staðsetningar og auk þess að veikja víglínu sína með holum hér og þar. Hjörvar, sem stýrði hvítu hermönnunum, hreiðraði um sig á e4 reitnum. Svartur afréð að reyna að blíðka goðin með því að fórna einum tindáta.
Fórnin sú hrökk ekki til, Hjörvar Steinn sleppti aldrei fastatakinu á stöðunni og vann nokkuð örugglega.
Guðmundur Kjartansson og Halldór Grétar Einarsson
Drottning Halldórs Grétars æddi út á lífið í byrjun tafls, illa búin í vetrarhörkunni. Guðmundur sýndi hennar hátign enga miskunn og svaraði vel með því að þrengja hressilega að henni. Drottningunni leið illa – í stað þess að vera öflugasti liðsmaðurinn fór öll orka samherja hennar eigin í björgunarleiðangur. Hvítur bætti stöðu sína jafnt og þétt og þegar svartur hélt að hann væri loksins kominn með drottninguna í stórsókn, skellti Gummi laglegum riddaragaffli á f6 snarlega og skiptamunur fór í hafið hjá svörtum.
20.Rf6+ ! Rxf6 21.Hxd8 Rbd7 22.Bf3 g4 23.Re4 Kg7!? 24.Bxf8+! Rxf8 25.Rxf6 Kxf6 26.Bg2.
Hvítur þurfti að gæta sín ögn og í tímahrakinu tók Gummi það til bragðs að fórna skiptamuni til baka og skipti einnig upp á drottningum. Við það minnkuðu yfirburðir hans eitthvað en hann vann samt örugglega.
Björgvin Víglundsson og Jón L Árnason
Björgvin með hvítt skildi eftir holu á d4 sem sóknarsnillingurinn Jón L nýtti sér undir riddara. Stuttu seinna lét svartur til skara skríða.
- – Rxh3+ 17. gxh3 Dxh3 18.Re2 Rxe2+ 19.Dxe2 He6 !
og hvítur gafst upp.
Bragi Þorfinnsson og Dagur Arngrímsson
Skákin var vel tefld af beggja hálfu. Engar skýrar línur og barst leikurinn víða.
En í kringum 33. leik náði Bragi smá taki sem hann náði að herða á Degi sem var tímanaumur á þessum kafla og fann ekki leikina sem hefðu dugað til jafnteflis. Svartur gafst svo upp eftir fertugasta leik þegar varnir hans voru brostnar og staðan töpuð.
Meðal óvæntra úrslita í A-flokki var gott jafntefli Magnúsar Pálma gegn Jóhanni Hjartarsyni.
Í B-flokki vann Páll Andrason Jón Trausta á efsta borði og tók þar með forystuna í flokknum. Fast á hæla hans koma þeir Birkir Ísak Jóhannsson og Loftur Baldvinsson sem unnu sigra á Óskari Víkingi (Birkir Ísak) og Eiríki Björnssyni (Loftur). Önnur úrslit í B-flokki voru nokkuð eftir bókinni og engar sáttaumleitanir í gangi.
Sjá önnur úrslit í A og B flokkum í yfirliti hér að neðan.
A flokkur:
http://chess-results.com/tnr406143.aspx?lan=1&art=2&rd=5
B flokkur:
http://chess-results.com/tnr406144.aspx?lan=1&art=2&rd=5
MótX 65+ meistarinn:
1.sæti: Björgvin Víglundsson 2,5 vinninga
MótX 50+ meistarinn:
- sæti: Jón L Árnason 4 vinninga
- – 3. sæti: Halldór Grétar Einarsson og Þröstur Þórhallsson 3 vinninga
Skákmeistari Breiðabliks:
- sæti: Halldór Grétar Einarsson 3 vinninga
2.-5. sæti: Dagur Arngrímsson, Magnús Pálmi Örnólfsson, Lenka Ptachnikova og Vignir Vatnar 2,5 vinninga
Unglingameistari Breiðabliks:
- sæti: Birkir Ísak Jóhannsson 4 vinninga
2.-5. sæti: Óskar Víkingur Davíðsson, Stephan Briem, Benedikt Briem og Gunnar Erik Guðmundsson 3 vinninga.
Teflt er á þriðjudagskvöldum og hefst taflmennska kl. 19:30. Skákstjóri er Vigfús Vigfússon.
Heitt er á könnunni og bruðerí af bestu sort og áhugasamir eru hvattir til að líta inn.