Fjársöfnun Goðans-Máta fyrir Velferðarsjóð Þingeyinga

Íslenski skákdagurinn var haldinn hátíðlegur um allt land í dag. Félagar í Goðanum-Mátum blésu til fjársöfnunar fyrir Velferðarsjóð Þingeyinga á Húsavík og gekk hún ágætlega. Hápunktur söfnunarinnar var þegar Kristinn Vilhjálmsson, starfsmaður Víkurrafs á Húsavík, tefldi eina hraðskák við Sigurbjörn Ásmundsson gjaldkera Goðans-Máta. Heimilstæki hf. höfðu heitið 50.000 krónum í söfnunina ef Kristinn tefldi eina skák og vék hann sér ekki undan því. 

Skákdagurinn 2013 021 (480x640)

Kristinn Vilhjálmsson að tafli við Sigurbjörn Ásmundsson. Sighvatur Karlsson fylgist með. 

Kristinn stóð lengi vel í Sigurbirni en varð að láta í minni pokann fyrir rest. Nokkrir aðrir tefldu skákir og gáfu fé til söfnunarinnar. Þeirra á meðal var sýslumaður Þingeyinga, Svavar Pálsson. Svavar gerði sér lítið fyrir og vann Hermann Aðalsteinsson formann Goðans-Máta. Svavar var þar með umsvifalaust skráður í félagið, enda var það mönnum metið til tekna að vinna einhvern félagsmann skákfélagsins og ekki verra að vinna sjálfan formanninn.

Skákdagurinn 2013 026 (640x480)

Páll Svavarsson að tafli við Sigurbjörn Ásmundsson. 

Söfnunni lauk klukkan 16:00 og þá afhenti Hermann Aðalsteinsson formaður Goðans-Máta Þórhildi Sigurðardóttur hjá Velferðarsjóði Þingeyinga, það fé sem safnast hafði yfir daginn. 

641skak2
 

Hermann Aðalsteinsson formaður Goðans-Máta afhendir Þórhildi Sigurðardóttir söfnunarféð. Mynd: Hafþór Hreiðarsson.

Sjá fleiri myndir í myndaalbúmi hér í hliðardálki.