Í dag er kynnt til leiks á skákhuginn.is, Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir, sem teflir á öðru borði í kvennaliðinu á Ólympíuskákmótinu sem hefst í ágústbyrjun.

Nóa-Siríusmótið 2014

Nafn

Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir

Taflfélag

Huginn

Staða

2. borð í kvennalandsliðinu

Hvenær tókstu fyrst þátt á Ólympíuskákmót og hversu oft hefur þú tekið þátt?

Ég tók fyrst þátt á Ólympíumótinu í Dresden 2008, þá 15 ára gömul. Hef verið í landsliðinu síðan þá og verður þetta því mitt fjórða Ólympíumót.

Minnisstæðasta skák á Ólympíuskákmóti og af hverju?:

Ein minnisstæðasta skák sem ég hef teflt á Ólympíumóti er skák á móti írskri eldri konu í annarri umferð í Síberíu. Skákin sjálf var svosem ekkert merkileg, ég var mun sterkari í byrjuninni og fékk unna stöðu fljótlega. Hins vegar er eftirminnilegt að andstæðingurinn stoppaði klukkuna tvisvar meðan á skák stóð og byrjaði að ræða við mig um að sólin skini á okkur, sótti svo dómara og hvort skákin var ekki sett í stutta bið meðan sólin færðist úr glugganum. Þegar staðan var orðin gjörtöpuð á þessa góðlegu konu á áttræðisaldri, fékk hún þá áhugaverðu hugmynd að segja mér að hún ætlaði að gefast upp en vildi ekki klára strax þar sem enn var ein önnur skák í viðureignin í gangi og þegar keppendur ljúka leik verða þeir að fara út af svæðinu. Ég varð hálf hissa en kunni nú ekki við annað en að samþykkja þetta og rölti því um svæðið næstu 20 mínúturnar þar til sú gamla var búin að skoða nóg.

Minnisstæðasta atvik á Ólympíuskákmóti?

Ferðin til Síberíu er mjög minnisstæð. Mikil óvissa var fyrir mót hvernig aðstæður yrðu, það virtist vera sem ekki væri búið að byggja hótelið sem gist yrði á og flugvöllurinn fannst hvergi á kortum né upplýsingum á netinu. Við héldum því af stað ögn áhyggjufull og máttum svosem vera það miðað við lengd flugbrautarinnar sem klárlega var ekki gerð fyrir stórar Boeng vélar. Ónefndir Íslendingar [Aths. ritstjóra: Hjörvar Steinn Grétarsson] voru orðnir ansi fölir á svipinn þegar flugvélin loks stoppaði, alltof nálægt enda flugbrautarinnar. Málningarlykt var enn í loftinu á hótelinu og vorum við með fyrstu gestum. Aðstæður voru til fyrirmyndar fyrir utan að lyfturnar voru síbilandi (herbergin okkar voru á 11.hæð og íslenska liðið því komið í gott form í lok ferðar) og mikill fjöldi hermanna með vélbyssur voru á hverju götuhorni. Við máttum ekki fara út af hótelinu, nema í fylgd með rússneskum fylgdarmanni og var þetta því harla ólíkt aðstæðum á flestum öðrum mótum sem ég hef komið á.

Hverjar eru þínar væntingar/vonir um gengi íslensku liðanna?

Þegar þetta er skrifað er enn ekki búið að birta keppendalista í kvennaflokki á mótinu og því erfitt að giska hvar íslenska liðið mun lenda. Við í liðinu erum einbeittar og ætlum okkur að eiga gott mót.

Strákarnir eru alltaf flottir og eiga ábyggilega eftir að standa sig.

Hverju spáir þú fyrir um sigurvegara?

Í opna flokknum eru Rússarnir með jafnt og þétt lið sem er mjög sigurstranglegt. Í kvennaflokkinum býst ég við að þær kínversku taki þetta, með heimsmeistarann Hou Yifan í broddi fylkingar.

Hver er/verður þinn undirbúningur fyrir Ól?

Ég tók þátt í nokkrum mót hérna heima í vor og hef verið að vinna nokkuð með þær skákir. Æfingar hjá kvennalandsliðinu eru einu sinni í viku, ásamt stúderingum heima.

Hefurðu áður teflt fyrir norðan heimskautsbaug?

Nei, hef aldrei áður farið norður fyrir heimskautsbaug.

Eitthvað að lokum?   Smile