Þriðja umferð hins fítonsterka Nóa-Siríus móts (Gestamóts Hugins og Skákdeildar Breiðabliks) hefst kl. 19.00 í kvöld. Lofa má miklum tilþrifum og jafnvel flugeldasýningum á sumum borðum.

Helst ber til tíðinda að tveir gamalreyndir en síferskir kappar, Jón Hálfdánarson og Friðrik Ólafsson, stórmeistari, takast á. Jón, sem þótti eitt allra efnilegasta ungstirnið hér á landi í kringum 1960, tekur nú þátt í kappskákmóti í fyrsta sinn eftir áratuga hlé. Friðrik var einmitt einn þeirra sem lauk lofsorði á þennan mikla efnispilt á sínum tíma og verður skemmtilegt að sjá hvaða byrjanabrellur þessir kappar draga fram úr pússi sínu.

Efstu keppendurnir tveir, fídemeistarinn snarpi Dagur Ragnarsson og alþjóðlegi meistarinn þrautreyndi Guðmundur Kjartansson, leiða saman hesta sína og verður þar tekist hart á. Af öðrum viðureignum má nefna að alþjóðlegi meistarinn Björgvin Jónsson stýrir hvítu mönnunum gegn Helga Á. Grétarssyni stórmeistara. Báðir eru þaullesnir í fræðunum og má því vænta mjög yfirvegaðrar taflmennsku með þungri undiröldu. Tveir öflugir sóknarskákmenn, fídemeistarinn Sigurður Daði Sigfússon og stórmeistarinn Þröstur Þórhallsson, skella saman skoltum. Telja verður þann sigurvænlegri sem fyrr kemst í kóngssókn.

Í B-flokki mætast efstu keppendurnir efnilegu, Stephan Briem og Birkir Karl Sigurðsson, annars vegar og Hrund Hauksdóttir og Hörður Anton Hauksson hins vegar, í spennandi viðureignum. Jafnframt er vert að vekja athygli á viðureign skákkonunnar ungu og efnilegu, Svövu Þorsteinsdóttur, við langstigahæsta keppanda B-riðils, Jón Trausta Harðarson.

Gestir eru velkomnir í Stúkuna á Kópavogsvelli. Sjá pörun á chess-results.com.