Akhressir öðlingar – pistill um Öðlingamótið 2011.

Hið árlega Öðlingamót TR er ekki síst merkilegt fyrir þær sakir hve marga síðþroska kolbíta það dregur úr öskustónni og teygir að taflborðinu. Hér er að sjálfsögðu átt við þá mætu skákunnendur sem halda sig löngum til hlés, lítt virkir eða óvirkir með öllu, en líta á  mót þetta sem gagnveg til uppvakningar, jafnvel uppljómunar á hvítum reitum og svörtum. Öðlingamótið hefur þann stóra kost að aðeins er teflt einu sinni í viku, þannig að þeir sem njörvaðir eru niður við dagleg störf hafa svigrúm til að taka þátt.


JON OR~1
 

                             Jón Þorvaldsson.

Skákmenn leyna á sér 

Nýafstaðið Öðlingamót, sem reyndar var 20 ára afmælismót þessa árlega viðburðar, hafði flest til að bera sem prýða má skemmtileg skákmót. Þátttaka var góð, fjörutíu sprækir skákmenn, margir hverjir afar öflugir, en aðrir ekki síður skeinuhættir sjálfum sér en andstæðingnum, tókust á af snerpu. Þó að hart væri barist er skemmtilegt samneyti, spjall og spaug snar þáttur í vinsældum mótsins. Skákmenn eru nefnilega miklu viðræðusleipari og spaugsamari en margur hyggur þegar þeir hrista af sér stríðshaminn og trans einbeitingar að skák lokinni.  

Baneitruð framrás og seigdrepandi sóknarþungi

Svo skemmtilega vildi til að fjórir fulltrúar Goðans tóku þátt að þessu sinni: Björn Þorsteinsson, tvöfaldur Íslandsmeistari, Siglfirðingarnir knáu, Páll Ágúst Jónsson og Sigurður Jón Gunnarsson, og undirrituður. Allir stóðu vel fyrir sínu og hækka á stigum, ekki síst Páll Ágúst sem var taplaus fram í síðustu umferð. Af einstökum viðureignum okkar manna má nefna sigurskák Björns Þorsteinssonar gegn Jóhanni Ragnarssyni þar sem vel tímasett framrás peða í miðtafli reyndist baneitruð; jafntefli Páls Ágústs gegn Braga Halldórssyni þar sem Páll varðist seigdrepandi sóknarþunga Braga með líkamlegu þoli,  útsjónarsemi og æðruleysi; og síðast en ekki síst öruggt jafntefli Sigurðar Jóns með svörtu gegn Halldóri Pálssyni sem stóð sig afar vel í áskorendaflokki Íslandsmótsins 2011. Keppinautar undirritaðs um efsta sætið í lokin, Þorsteinn Þorsteinsson og Kristján Guðmundsson, gáfu fá færi á sér enda báðir moldsterkir og hafa marga fjöruna sopið með gyðjunni Caissu. Þorsteini óskum við til hamingju með sigurinn.  

Gjöf til Ólafs frá Goðanum

Mótsstjórn var í öruggum höndum skákstjórans geðþekka, Ólafs Ásgrímssonar, sem jafnframt er hugmyndasmiður viðburðar þessa. Í tilefni 20 ára afmælis mótsins færði Goðinn Ólafi veglega kræsingakörfu að gjöf, sem Birna, kona hans tók við fyrir hönd eiginmanns síns í veikindum hans. Voru Ólafi færðar bestu þakkir fyrir fórnfýsi, alúð og mikilvægt framlag til íslenskrar skákmenningar og tóku keppendur á lokakvöldi móstins heilshugar undir góðar kveðjur til Ólafs með ósk um skjótan bata.

Öðlingamótin verði tvö á ári

Vert er að þakka forvígismönnum Taflfélags Reykjavíkur fyrir að ljá mótinu góða umgjörð í vistlegum salarkynnum sínum. Kristján Guðmundsson stakk upp á því við verðlaunaafhendingu mótsins að Öðlingamótin yrðu framvegis tvö á ári enda væri ljóst af sívaxandi þátttöku að verið væri að koma til móts við hann og fleiri skákmenn sem hentar best að tefla einu sinni í viku. Tók Sigurlaug, formaður TR vel í áskorun Kristjáns og taldi vel koma til greina að halda Vetrarmót öðlinga í okt./nóv ásamt Vormóti Öðlinga í apríl/maí. Var gerður mjög góður rómur að þessari hugmynd sem vonandi verður að veruleika. Það er von okkar Goðamanna að þetta ágæta framtak Ólafs og TR megi dafna um langa framtíð. 

Við Goðamenn stefnum að minnsta kosti að myndarlegri þátttöku á næsta móti sem vonandi verður síðar á þessu ári. 

                             Jón Þorvaldsson.