Skákæfingar fyrir börn og unglinga verða haldnar í vetur á miðvikudögum frá 17:15-18:45 í umsjón Jóhönnu Bjargar Jóhannsdóttur og Heimis Páls Ragnarssonar.

Fyrsta æfingin fór fram miðvikudaginn 16. október síðastliðinn í björtum og rúmgóðum salarkynnum Leiknis. Á þessari fyrstu æfingu var stemningin góð. Jóhanna og Heimir fóru yfir grunnatriðin og svo voru tefldar léttar hraðskákir.

Æfingar verða auglýstar í skólum á svæðinu og svo mun þjálfarateymi Leiknis hvetja ungmenni til þess að kynna sér baráttuna á reitunum 64, en herkænsku þar getur svipað til þeirrar sem fer fram á knattspyrnuvellinum. Þess má geta að þjálfararnir eru góðir skákmenn og komu einmitt við hjá Jóhönnu og Heimi og tóku nokkrar hraðskákir. Næsta æfing verður haldin miðvikudaginn 23. október kl. 17:15.

Áhugasamir eru hvattir til þess að mæta. Fyrirspurnum má beina til Jóhönnu Bjargar á netfangið jbj10@hi.is.