FRÉTTATILKYNNING 12. MAÍ 2014 

Skákfélagið GM Hellir hefur hlotið nýtt heiti og nefnist héðan í frá Skákfélagið Huginn. Nafnið var valið á nýafstöðnum aðalfundi félagsins 2014, eins og kveðið var á um í samrunasamningi skákfélaganna Goðans-Máta og Hellis haustið 2013. Fyrri nafngift félagsins, skammstöfunin GM Hellir, var hugsuð til bráðabirgða og var sérstakri nafnanefnd falið skömmu eftir sameininguna að leggja fram tillögur um endanlegt heiti. Áhersla var lögð á að nafnið væri á góðri íslensku, sérstætt, þjált og nothæft alþjóðlega.

 

Huginn var nafn á öðrum hrafna Óðins. Hrafninn er viskufugl enda sendi Óðinn hrafna sína, Hugin og Munin, til að leita þekkingar. Merking nafnsins Huginn er hugur, hugsun; áræði sem fellur vel að skákiðkun og forsendum árangurs á því sviði. Indóevrópsk rót orðsins er „keu“, sem merkir að huga að eða skynja. Beyging: Huginn–Hugin–Hugin–Hugins.

Hermann Aðalsteinsson, formaður Hugins: „Það er ánægjuefni að félaginu hefur verið fundið þetta fagra og rismikla nafn sem ég hef trú á að venjist vel. Segja má að þar með sé sameiningarferli félaganna endanlega lokið í huglægri merkingu. Hið nýja félag er sprottið upp af þremur sterkum rótum og hefur því ákveðna hefð að byggja á, en á líka sjálft eftir að skapa nafninu sínu orðspor af eigin verðleikum. Ég treysti Huginsmönnum, konum og körlum, vel til þess uppbyggingarstarfs.“

Fram undan er það verkefni að setja nýja nafnið í réttan búning og leggja línur að framtíðarásýnd félagsins. Stefnt er að því að opna vef Hugins í öndverðum júní og verður nýtt kennimark félagsins kynnt um leið. Lén Hugins, skakhuginn.is, verður jafnframt tekið í gagnið á sama tíma.