Nóa-Síríus mótið 2016 – Gestamót Hugins og skákdeildar Breiðabliks, hefst í Skákmusterinu á Kópavogsvelli í kvöld kl 19:30. Um er að ræða eitt allra sterkasta skákmót ársins en það er nú haldið í sjötta sinn. Mótið hefur aldrei verið veglegra en yfir 60 snjallir og efnilegir skákmenn á öllum aldri eru skráðir til leiks. Á fjórða tug keppenda er skráður til keppni í A-flokki og hafa allir þátttakendur í þeim flokki yfir 2.000 elóskákstig. Meðalstig keppenda er vel yfir 2.200 eló. Bryddað er upp á þeirri nýjung að nú verður teflt í sérstökum B-flokki skákmanna undir 2.000 elóskákstigum.

Gestamótið 2014 1

Í A-flokki taka margir af sterkustu skákmönnum landsins þátt. Stórmeistararnir Stefán Kristjánsson og Þröstur Þórhallsson eru meðal keppenda, auk alþjóðlegu meistaranna Guðmundar Kjartanssonar, Karls Þorsteins, Björns Þorfinnssonar og Björgvins Jónssonar. Lenka Ptacnikova, stórmeistari kvenna og Guðlaug Þorsteinsdóttir, Fide-meistari kvenna, taka einnig þátt í mótinu ásamt 12 öðrum sterkum Fide-meisturum. Margir upprennandi skákmenn af yngri kynslóðinni taka líka þátt í mótinu, því á keppendalistanum í A-flokki má finna þá Dag Ragnarsson, Óliver Aron Jóhannesson, Mikael Jóhann Karlsson, Örn Leo Jóhannsson, Jón Trausta Harðarson og Vigni Vatnar Stefánsson en hann er yngsti keppandinn í A-flokki. Af fullþroska skákljónum má nefna kappana knáu Jón Kristinsson, Björgvin Víglundsson, Þorstein Þorsteinsson og Benedikt Jónasson.

A-flokkur á Chess-results

Í B-flokknum er yngri kynslóðin fjölmenn. Þar er margt bráðefnilegt ungviðið skráð til leiks sem brjótast mun til ríkis í íslensku skáklífi á næstu árum.

B-flokkur á Chess-results

Nánari upplýsingar fyrir keppendur

Tefldar verða 6 umferðir í báðum flokkum í stúkunni við Kópavogsvöll næstu 6 fimmtudagskvöld 7., 14.,21., 28 jan. og 4., 11. feb. og hefst taflmennska alltaf kl. 19:30. Tímamörk: 40 leikir á 90 mín. Þá bætast við 30. mín til að ljúka skákinni. Auk þess bætast alltaf við 30 sek. fyrir hvern leik.

1) Óska má eftir tveimur yfirsetum í umferðum 1-5. Óska þarf eftir yfirsetum fyrir kl. 23 á skákdegi næstu umferðar á undan. Óheimilt er að sitja yfir í 6. umferð.

2) Óska þarf eftir yfirsetu á þar til gerðu eyðublaði eða í tölvupósti í netfangið gunnar@skaksamband.is , þ.e. beiðni verður að vera skrifleg.

3) Parað verður á fimmtudagskvöldum – strax að lokinni síðustu skák umferðar.

4) ALLAR skákir í síðustu umferð fari fram á tilskyldum tíma.

5) Ekki er hægt að fresta skákum í næstsíðustu umferð. Tefla verður fyrirfram ef menn geta ekki teflt þá.