Nýtt kennimark Hugins og nýr vefur

Skákfélagið Huginn hefur eignast kennimark (logo) sem verður framvegis kjarni sjónrænna auðkenna félagsins.

 

Kennimarkið speglar metnaðarfullt félagsstarf og þau eilífu átök sem eiga sér stað á skákborðinu, auk þess að vísa til þeirrar blöndu af baráttuanda, herkænsku og háttvísi sem félagið vill hafa í öndvegi.

Enn fremur talar nafnið Huginn sínu máli um hugvit og hugrekki sem prýða má sérhvern iðkanda göfugrar íþróttar.

 

huginn brúnt og blátt

 

Nýja kennimarkið er í senn nútímalegt og sígilt. Það kallast á við skjaldarmerki konunga og drottninga sem er vel við hæfi þegar skák er annars vegar.

Merkið skírskotar jafnt til beggja kynja enda er ekki nokkur leið að skera úr um hvort mannveran í hertygjunum er karl í anda riddarasagna miðaalda

eða kvenhetja á borð við Jóhönnu af Örk.

 

Höfundur kennimarksins er Kristján E, Karlsson, grafískur hönnuður.

 

Nýr vefur Hugins

 

Jafnframt er kynnt til sögunnar ný heimasíða Hugins þar sem nálgast má upplýsingar um helstu viðburði á vegum félagins ásamt öðru skáktengdu efni og fréttum.

Lögð er áhersla á að upplýsingar séu aðgengilegar og notendavænar í þessum glugga Hugins að umheiminum. Séstakir hnappar eru fyrir barnastarf og kvennastarf

til að undirstrika áherslu félagsins á að sinna þessum mikilvægu þáttum af kostgæfni.

 

Skákhuginn.is