Sigurður Daníelsson þá nýkrýndur Skákmeistari Goðans árið 2016

Sigurður Gunnar Daníelsson gekk til liðs við Skákfélagið Goðann árið 2013. Þá bjó hann á Raufarhöfn og var nýlega hættur að kenna við grunnskólann þar. Siggi Dan, eins og hann var ávallt kallaður, varð skákmeistari Goðans árið 2016. Einnig vann hann Janúarmót Goðans árið 2017 og hann vann Páskaskákmót Goðans árið 2021. Auk þessa varð hann mjög oft í verðlaunasæti á mörgum öðrum mótum sem hann tók þátt í hjá Goðanum. Siggi tefldi oft með Goðanum á Íslandsmóti skákfélaga og síðast í október árið 2022.

Sigurður G Daníelsson tók þátt í Kragerömótin í Noregi árið 2018 (Mynd Anniken Vestby)

Skákstíll Sigurðar var mjög villtur. Stigahærri skákmenn áttu oft í miklum erfiðleikum með að svara hvössum sóknarleik Sigga sem oft fórnaði manni snemma í sínum skákum. En það kom ekki að sök. Mjög oft stóð hann uppi sem sigurvegari. Bestu ár Sigga við skákborðið voru þó liðin þegar hann gekk til liðs við Goðann, en hann var samt erfiður viðureignar.

Sigurður Danielsson gegn Sævari Bjarnasyni árið 1982

Sigurður tók þátt í Peer Gynt mótinu í Gausdal í Noregi árið 1992 ásamt fjölmörgum öðrum Íslenskum skákmönnum. Sigurður fékk 3,5 vinninga á mótinu og gerði m.a. jafntefli gegn Fide meistararnum Kari Tammela í 4.umferð, sem þá var með 2340 skákstig. Því miður hefur sú skák ekki varðveist. Samferðamenn hans á mótinu minnast hans fyrir skemmtilegar sögur sem hann sagði þeim frá og hann tefldi manna skemmtilegast, sókndjarfur mjög og nánast fórn í hverri skák. Sigurður fékk bókina “Queen sacrifices” að gjöf frá samferðamönnum sínum í lok móts. Síðasta mótið erlendis sem Sigurður tefldi á var í Kragerö í Noregi árið 2018, ásamt undirituðum og nokkrum öðrum Íslenskum skákmönnum.

Sigurður tefldi einnig á móti í Svíþjóð á þessum árum og trúlega víðar, auk mótum hér heima. Siguður tefldi í landsliðsflokki árið 1982 eftir góðan árangur í áskorendaflokki árið áður. Sigurður náði amk. 1975 ísl. skákstigum og náið best 2132 fide skákstigum.

Sigurður Gunnar Daníelsson var fæddur 1944. Hann bjó bæði á Siglufirði og Höfn í Hornafirði áður en hann fluttist vestur á firði en hann starfaði sem organisti á Tálknafirði, stjórnaði þar Samkór Tálknafjarðar um tíma og væntanlega hefur hann einnig stjórnað kirkjukórnum á staðnum, þá var hann skólastjóri tónlistarskólans á staðnum og kom að ýmsum tónlistartengdum viðburðum í héraðinu með hljóðfæraleik, tónlistarstjórn við áhugaleikhús o.fl.

Sigurður Daníelsson – Kragerö 2018 (Mynd: Anniken Vestby)

Frá Tálknafirði fór Sigurður austur í Húnavatnssýslu þar sem hann gegndi svipuðu hlutverki í menningar- og tónlistarlífi Húnvetninga, hann var tónlistarkennari á Blönduósi og organisti og kórstjóri við Blönduóskirkju og Hólaneskirkju á Skagaströnd, hann stjórnaði þar einnig Samkórnum Björk og stúlknakór á Blönduósi um tíma. Hann tók þátt í hvers konar tónlistartengdum uppákomum á svæðinu einnig s.s. tengt Húnavöku, og kom oft fram sem undirleikari m.a. Lóuþræla og Jóhanns Más Jóhannssonar einsöngvara svo dæmi séu nefnd.

Sigurður með málverk

1991 fluttist Sigurður aftur vestur á firði en að þessu sinni til Súgandafjarðar, gerðist skólastjóri tónlistarskólans á Suðureyri, stjórnaði þar kirkjukórum og gegndi starfi organista, stjórnaði þar einnig barnakór. Hann virðist svo hafa fært sig um set og starfaði á Þingeyri við Dýrafjörð við tónlistarskólann, sem organisti og stjórnandi kirkjukórs, á sumrin starfaði hann svo sem safnvörður við safnið um Jón Sigurðsson. Frá Vestfjörðum fór Sigurður til Raufarhafnar þar sem hann gerðist tónlistarkennari en hann hætti að kenna árið 2012. Sigurður bjó áfram á Raufarhöfn, en var nýlega fluttur á hjúkrunarheimilið Skjól á Þórshöfn þar sem hann lést 24. október sl.

Árið 2002 kom út píanóplata á vegum Vestfirska forlagsins í nafni Sigurðar, hún bar heitið Dinner I: Sigurður G. Daníelsson leikur af fingrum fram, og hefur að geyma tuttugu lög úr ýmsum áttum og frá ýmsum tímum – dinnertónlist eins og titillinn ber með sér. Platan hlaut þokkalega gagnrýni í Morgunblaðinu.

Sigurður samdi bæði lög og texta í gegnum tíðina en ekki er að sjá að mörg þeirra hafi komið út á plötum, þó liggja fyrir heimildir um lagið Leysum festar á plötu Samkórsins Bjarkar, Blöndu (2008). Honum var einnig ýmislegt annað til lista lagt, hann hélt málverkasýningar og var jafnframt liðtækur skákmaður og keppti í þeirri íþrótt um árabil. (tekið af Glatkistan.is)

Tveir að tefla. Sigurður Daníelsson málaði þessa mynd sem hangir upp í Rimaskóla í Gravarvogi.
Sigurður á móti hjá Goðanum árið 2015
Sigurður að skoða stöðu úr skák á móti hjá Goðanum

 

Jarðarför Sigurðar Daníelssonar fer fram frá Raufarhafnarkirkju laugardaginn 18. nóvember nk. Hermann Aðalsteinsson formaður Skákfélagsins Goðans