BORGARSKÁKMÓTIÐ 2015-003Alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson sem tefldi fyrir Malbikunarstöðina Höfða sigraði á 28. Borgarskákmótinu sem fram fór í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær. Hann sigraði alla andstæðinga sína og kom í mark með 7 vinninga. Jón Viktor sigraði einnig mótið í fyrra en þá hlaut hann 6 1/2 vinning.

Formaður borgarráðs og staðgengill Borgarstjóra Sigurður Björn Blöndal setti mótið, og hafði á orði að síðasta skák sem hann hefði teflt við hefði verið gegn Róbert Lagerman á Grænlandi fyrir nokkrum árum. Nefndi hann einnig í ræðu sinni að það væri gaman að sjá hve skákin héldi vel velli, væri í sókn og hve breiður hópur skákmanna væri mættur í Ráðhúsið. Að því loknu lék hann fyrsta leiknum í skák Jóns Viktors og Sigurðar Ingasonar (Borgarplast).

Mótið í ár var ágætlega mannað en alls tóku 63 keppendur þátt að þessu sinni. Yfir sjötíu ára aldursmunur var á yngsta og elsta keppenda mótsins þeim Adam Ómarssyni (8) og Páli G. Jónssyni (82) og stóðu báðir sig með með prýði.

Borgarskakm_2015-7Fyrirfram máttti búast við harðri keppni titilhafanna á mótinu um sigurinn og sú varð raunin. Fide meistarinn Davíð Kjartansson sem tefldi fyrir Olís kom annar í mark á eftir Jón Viktor með sex vinninga og tapaði einungis innbyrðisviðureign þeirra. Þriðji varð svo annar Fide meistari, fyrrnefndur Róbert Lagerman (Faxaflóahafnir) með 5 1/2 vinning.

Lokastaðan – Excel

Ungu skákmennirnir settu sterkan svip á mótið og fóru mikinn. Örn Leó Jóhannsson (Efling stéttarfélag) og Jón Trausti Harðarson (Grillhúsið) hlutu báðir 5 vinninga og enduðu í 4.-13. sæti. Tvíburabræðurnir ungu Björn og Bárður Birkissynir sem tefldu fyrir Byko og Hamborgarbúllu Tómasar vöktu athygli og lögðu að velli marga reynda meistara. Má þar nefna Forseta skáksambandsins Gunnar Björnsson (Landsvirkjun) sem þurfti að játa sig sigraðann gegn þeim báðum, Stefán Bergsson (Jómfrúin) og gamla brýnið Gunnar Gunnarsson (Sjóvá) sem þurftu að lúta í gras gegn Bárði og alþjóðlegi skákdómarinn Omar Salama (Hvalur hf) sem fann engar löglegar leiðir til að verjast Birni. Þá stóð Óskar Víkingur Davíðsson (10) (Íslandsbanki) sig mjög vel og kom í mark með 4 1/2 vinning eftir góðan endasprett.

Borgarskakm_2015-57Af stúlkunum stóð Lenka (Íslandspóstur) sig best (4v), Guðlaug (Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins) (3 1/2), Veroníka (Hlölla bátar) (3) og Freyja Birkisdóttir sem einungis er níu ára hlaut 2 vinninga.

Skák og lífskúnsterinn Einar S. Einarsson átti trúlega stystu skák mótsins þegar að hann kæfingarmátaði Guðlaugu Þorsteinsdóttir með þekktu stefi í Búdapestarvörninni í einungis 7 leikjum.

Töluverður fjöldi áhorfenda var á mótinu, þá einkannlega túristar sem staddir voru í Ráðhúsinu og fylgdust spenntir með af pallinum. Aðrir höfðu minni áhuga á taflmennskunni en þeim mun meiri á öndunum á tjörninni. Þeirra á meðal sonur Omars og Lenku sem grandskoðaði fuglalífið á meðan á móti stóð.

Skákfélagið Huginn vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem tóku þátt, Borgarinnar fyrir að hýsa mótið, Taflfélagi Reykjavíkur fyrir samstarfið og síðast en ekki síst þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem styrktu mótið.

Sjáumst að ári!

 

 


 

Myndagallerí – Myndir: Björn Jónsson og Einar S. Einarsson

(Smellið á myndir til að stækka)