Árið 2023 hefur verið Skákfélaginu Goðanum afar gott. Móta og æfingarhald stendur í miklum blóma og félagsmönnum heldur áfram að fjölga. Skráðir félagsmenn eru við áramót eru 87 og engin hefur yfirgefið það á þessu ári, frekar en undanfarin ár. 13 nýir skákmenn gengu til liðs við Goðann á árinu sem gaf okkur möguleika á að stilla upp þremur sveitum á Íslandsmóti Skákfélaga 2023-24. A-sveit Goðans tefldi í frysta skipti í 3. deild á Íslandsmóti skákfélaga í október og mun síðan klára tímabilið í mars. A- sveitin á fína möguleika á að vinna sig upp í 2. deild. B og C sveitirnar eru í 4 deild og var gengi þeirra með miklum ágætum. Sigurður Daníelsson lést á árinu og var hans minnst í sérstökum pistli á vefnum okkar.
Margt mjög jákvætt er í farvatninu á nýju ári. Goðinn mun fá amk. tímabundna æfinga og mótaaðstöðu í Framhaldsskólanum á Laugum í samstarfi við Framhaldsskólann og Þingeyjarsveit. Það verður eitt af fyrstu verkum formanns á nýju ári að skoða væntanlega aðstöðu og byrja að nota hana. Þingeyjarsveit hefur boðað að til standi að gera sérstaka samstarfssamninga við öll starfandi íþróttafélög í Þingeyjarsveit á árinu 2024 og verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því. Einnig hefur samstarf við rekstrarhafa veitingarstaðarins Hlöðufells á Húsavík verið jákvætt og verður framhald á því á nýju ári. Líklegt er að margar skákir í skákþingi Goðans 2024 verði tefldar þar.
Skákfélagið Goðinn var samþykkt inn á Almannaheillaskrá hjá Skattinum á árinu 2023 sem gerir það að verkum að einstaklingar geta styrkt félagið en fegnið í staðinn skattaafslátt. Lesa má nánar um þá tilhögun hér. Nú þegar hafa tveir aðilar nýtt sér þetta.
Skákþing Goðans fer fram í janúar og febrúar og falla allar skákæfingar niður á þeim tíma. Goðinn mun halda uppá Skákdaginn 26. janúar með veglegum hætti sem er í undirbúningi. Íslandsmót skákfélaga seinni hluti, fer fram helgina 2-3 mars. Héraðsmót HSÞ er áætlað 16. mars á Laugum. Skákþing Norðlendinga er á áætlun helgina 19-21 apríl að Skógum í Fnjóskadal og Vormót Goðans er áætlað 28. apríl. Það mun væntanlega slá botninni í vetrarstarfið 2023-24.
Nokkrir félagsmenn fara síðan á skákmót í Dublin á Írlandi um páskana 2024 og óhætt er að segja að mikil eftirvænting sé fyrir þessu móti. Nokkrir aðrir skákmenn utan Goðans ætla að fara líka og það stefnir því í Íslenska útrás til Dublin um páskana.
Í september byrjaði Goðinn að nota pörunarforritið Chess-manager á öllum mótum og æfingum. Það forrit er frá Póllandi og hefur eiginlega bara kosti fram yfir Swiss-manager. Helstu kostir þess eru þeir að það þarf ekki að hala niður neinu sérstöku forriti, né heldur að uppfæra neitt í hverjum mánuði. Það er einnig hægt að nota það í síma og spjaldtölvu, sem gerir notagildið mjög mikið.
Snemma á árinu 2024 verður hægt að tengja greiðslumiðlun og skráningar á mót beint við chess-manager, sem er gríðarlegur kostur. Þegar það verður komið í gagnið munu keppendur á þeim mótum hjá Goðanum sem verða með þátttökugjaldi, að greiða það við skráningu í mót með korti. Ekki verður mögulegt að skrá sig til keppni í viðkomandi mót nema að greiða þátttökugjald við skráningu. Þetta mun auðvelda alla umsýslu og kemur nánast í veg fyrir svika-skráningar í mót, sem hefur oft á tíðum verið til vandræða fyrir skipuleggjendur móta. Héraðsmót HSÞ og Skákþing Norðlendinga eru dæmi um mót þar sem þessi aðferð verður notuð.
Oleksandr Matlak, öflugur skákmaður frá Úkraínu sem býr á Englandi, gekk til liðs við Goðann í september og stóð sig mjög vel með A-liði Goðans í frumraun sinni með okkur. Hann landaði 3,5 vinningum af 4 mögulegum í fyrri hluta Íslandsmótsins og styrkti innkoma hans A-liðið gríðarlega. Hann mun einnig tefla með okkur í seinni hlutanu í mars.
Vetrarstarfið næsta tímabil 2024-25 mun litast af 20 ára afmæli Goðans og þann 15 mars 2025 mun Goðinn halda upp á 20 ára afmæli. Það verður eitthvað stórt gert þann dag eða þá helgi, en það liggur ekki fyrir nákvæmlega núna hvað það verður.
Að lokum vil ég þakka öllum þeim félagsmönnum sem hafa lagt sig fram við það á mæta á æfingar og mót hjá Goðanum á árinu og óska þeim öllum velfarnaðar nýju ári.
Hér fyrir neðan má svo skoða skemmtilega myndasýningu af flest öllum félagsmönnum sem til voru góðar myndir af. Einnig má sjá nokkrar skákmenn sem hafa mætt á mót hjá Goðanum en eru ekki félagsmenn. Listinn er ekki tæmandi þar sem ekki eru til nægilega góðar myndir af öllum
Hermann Aðalsteinsson formaður Goðans.