Batel Gotom Haile vann eldri flokkinn og Einar Dagur Brynjarsson yngri flokkinn á Huginsæfing sem haldin var 31. október sl. Baráttan var mjög jöfn og spennandi í eldri flokknum en þar voru Batel, Einar Tryggvi Petersen og Rayan Sharifa öll jöfn með 4v af sex mögulegum. Batel var hæst á stigum með 14 stig og hlaut fysta sætið, Næstur kom Einar Tryggvi með 12 stig og annað sætið var hans og þriðji var Rayan Sharifa með 10 stig. Það kom sér vel fyrir Einar Tryggva að leysa dæmið á æfingunni rétt því það fleytti honum í verðlaunasæti í eldri flokknum í fyrsta sinn en Einar Tryggvi er tiltölulega nýkominn úr yngri flokknum. Það hefur ekki verið oft sem dæmið á æfingunni hefur haft áhrif á úrslitin en í þetta sinn hafði það afgerandi áhrif.

img_2955Í yngri flokki voru úrslitin alveg afgerandi. Einar Dagur Brynjarsson sigraði örugglega með fullu húsi 6v af sex mögulegum. Annar varð Andri Hrannar Elvarsson með 5v og þriðja sætið hreppti Zofia Momuntjuk með 3v en hún og Wiktoria systir hennar hafa skipst á að lenda í verðlaunasætum í yngri flokknum á síðustu æfingum.

 

Í æfingunni tóku þátt: Batel Goitom Haile, Einar Tryggvi Petersen, Rayan Sharifa, Óttar Örn Bergmann Sigfússon, Brynjar Haraldsson, Viktor Már Guðmundsson, Elfar Ingi Þorsteinsson, Ívar Lúðvíksson, Einar Dagur Brynjarsson, Andri Hrannar Elvarsson, Zofia Momuntjuk, Brynjólfur Jan Brynjólfsson, Wiktoria Momuntjuk, Gunnar Freyr Valsson,  Jóel Freyr Inason og Bjartur Freyr Jörgensen Heider.

Næsta æfing verður mánudaginn 7. nóvember 2016 og hefst kl. 17.15. Æfingarnar eru í félagsheimili Hugins í Álfabakka 14a í Mjóddinni. Gengið er inn milli Subway og Fröken Júlíu og salurinn er á þriðju hæð.

Dæmið á æfingunni:

Svartur á leik. Finna á góða áætlun fyrir svartan í þessu hróksendatafli.

  1. Kóngurinn á að fara út á miðborðið eins fljótt og hægt er og best er að staðsetja hann á d4. Leiðin er g7-f6-e5.
  2. Með því að tvöfalda hrókana með 1…..Hfd8 vinnur svartur annað hvort d- eða e-peðið.
  3. Hvíti hrókurinn er lokaður inni á f3 svo svartur á að stefna að því að vinna hann.
  4. Svartur stendur ver vegna tvípeðsins á f-línunni en getur náð öruggu jafntefli með 1……Hfd8 2. Hd1 He8 (hótar e-peðinu vegna leppunarinnar) 3. He1 Hed8 4. Hd1 og brátt getur svartur krafist jafnteflis vegna þar sem sama staðan hefur komið þrisvar upp.
  5. Stöðva framrás hvítu peðanna á drottningarvæng með 1….b5.