Einar Hjalti fer á kostum.

Einar Hjalti
Jensson (2227)
hefur reynst Goðanum drjúgur liðsmaður síðan hann  gekk til liðs við félagið haustið 2010. Strax
í öndverðu var ljóst að mikill fengur væri í svo öflugum keppnismanni. Síðar
kom á daginn að hæfileikar hans nýttust félaginu á fleiri vegu.  

IMG 0771

 Einar Hjalti Jensson í essinu sínu að uppfræða félagana.

Einar Hjalti
hefur lag á að hrífa félaga sína með sér í krafti jákvæðni og félagsþroska. Sú lyndiseinkunn
fellur vel að þingeyskri hugmyndafræði Hermanns formanns og félaga sem leggja
áherslu á glaðværð og skemmtilegt samneyti. Það á alltaf að vera gaman í
Goðanum –   þar gildir einu hvort menn
eru að spjalla saman í mesta bróðerni eða berast á banaspjót á vígvelli
skákborðsins. 

Einar er
ennfremur afar vel að sér í skákfræðunum og býr þar m.a. að þeirri uppfræðslu  er hann hlaut í Skákskóla Íslands sem einn af
efnilegustu unglingum landsins. Hann hefur staðið að vandaðri byrjankennslu á
skemmtikvöldum Goðans sunnan heiða og hafa sumar kennslustundir hans meira að
segja verið sendir félögunum norðan heiða í gegnum Skype. Fyrir skömmu hélt
Einar áhugavert erindi um undirbúning og sálfræði skáklistarinnar og sama kvöld
hélt Ásgeir P. Ásbjörnsson fróðlegan fyrirlestur um skák á Internetinu, en hann
á hugmyndina að þemakvöldum.

IMG 0769

Björn Þorsteinsson og Ásgeir P Ásgeirsson fylgjast með.

Einar Hjalti
hefur gjarnan aðstoðað einstaka félaga sína í Goðanum við byrjanaval og
sitthvað fleira. Þannig var undirrituðum t.d. akkur í ábendingum og hvatningu Einars
á nýafstöðnu öðlingamóti. Vonandi nær Einar að skjótast norður í Þingeyjarsýslu
með haustinu og halda þar fróðleg og hvetjandi erindi um leynda dóma
skáklistarinnar.

Ég vil að
endingu óska Einari Hjalta til hamingju með mjög góðan árangur á stigamóti
Hellis þar sem hann hafnaði í 1.-3. sæti. Við Goðamenn vonumst til að njóta
félagsskapar þessa geðþekka vígamanns um langa framtíð.

Jón
Þorvaldsson.