Skákfélagið Huginn reit nafn sitt á rollu íslenskrar skáksögu með sigri á nýloknu Íslandsmóti skákfélaga. Fylgt var fimm ára búnaðaráætlun Hermanns Aðalsteinssonar, fjárbónda og formanns félagsins, er hann lagði fram á skerplu árið 2010, ásamt 200 lausavísum um strategíska hugsun í skák og ágæti framsóknarmennsku. Fengu sauðamenn í sveit Goðans sáluga skýr fyrirmæli um að hampa sigurverðlaunum á Íslandsmótinu á 10 ára afmæli félagsins árið 2015, félaginu til framdráttar og Framsóknarflokknum til dýrðar, auk þess sem þeim var gert að læra lausavísurnar utanbókar. Hermann vissi sem var að á tímum endalauss bölmóðs og upphafningar lágmenningar með gosi í Eyjafjallajökli í ofanálag, væri nauðsyn að blása liðsmönnum nýjum metnaði í brjóst.

Lyngbrekkulandi

Þessu til áréttingar hellti Hermann upp á félagsmenn göróttum drykk, svonefndum Lyngbrekkulanda, en alkunna er að bóndinn á bæ þessum í Reykjadal er slyngastur ölgerðarmaður vestan Helkunduheiðar. Er mungátið þeirrar náttúru að ekki þarf nema örlítið magn til þess að hugsun skýrist, fjör færist um kroppinn og endurherði hann til afreka. Um samdist að Hermann kæmi vel birgur suður af lífsexelír þessum fyrir hverja Deildarkeppni héðan í frá enda væri hann jafn glöggskyggn á fóðurbæti manna sem sauðfjár. Jafnframt er það til marks um glöggt fjárauga búandans á Lyngbrekku að á næstu árum var hann hvatamaður að sameiningu við Goðans við Máta og síðan við Helli en bæði félög státuðu af úrvals skákmannakyni.

Riðið til þings – formaður hleypur á sig

Það var skrautlegur flokkur Huginsmanna sem reið til alþingis skákíþróttarinnar í Rimaskóla í gormánuði 2014, með tvær sveitir í efstu deild í fylkingarbrjósti. Reiðlag var misjafnt. Sumir voru upplitsdjarfir, börðu fótastokkinn og æpðu frýjunarorð en aðrir sátu hoknir af reynslu, mæltu fátt og riðu lestargang. Vopn voru og mishvöss, sum hert úr þýsku stáli en önnur lamin saman úr reykdælskum mýrrarauða í smiðju Lyngbrekkubónda. Hermann formaður var óvenju hátíðlegur í fasi því að stóra stundin var runninn upp, nú skyldi titillinn vinnast. Þegar mikið liggur undir, taka menn stundum hlutina of alvarlega og Hermann féll einmitt í þá gryfju því hann sett liðsmenn sína í landabann – þeir fengju ekki að dreypa á elexírnum góða fyrr en að fyrstu 5 umferðunum loknum.

Vopnaviðskipti

Í fyrstu umferð áttust við a- og b-lið Hugins. Kenndi þar aflsmunar en tíðindum sætti að kappinn þrautreyndi, Kristján Eðvarðsson, hrökk undan danósa særingum galdramannsins unga af Vestfjörðum, Hilmis Freys Heimissonar. Úrslit 7-1 a-liðinu í vil. Í annarri umferð tókst a-lið Hugins á við Bolvíkinga og féll flest með Huginsmönnum nema hvað Jóhann Hjartarson sneri niður kanadíska stórmeistarann Eirík Hansson af alkunnri snilld. Brást Eiríkur vel við dauða sínum enda af norrænum ættum í bland við kínverskar. Úrslit 6-2 fyrir Hugin. Á meðan lagði B-lið Hugins Skákfélag Íslands með sömu tölu, 6-2, þar sem lyfjafræðingurinn knái, Sigurður Daði, samdi um skiptan hlut við stórmeistarann Altungu Kveinys á 1. borði. Athygli vakti að eftir skákina sátu þeir Daði og Altunga saman í bróðerni og ræddu holla lífshætti og heilbrigðismál, einkum þó bjargráð við vélindabakflæði en Sigurður Daði er manna fróðastur um lyfjameðhöndlun við þeim hvimleiða kvilla.

Tap gegn TV – og formaður lætur segjast

Í þriðju umferð á laugardagsmorgninum tapaði a-lið Hugins fyrir gallhörðum og sæhertum Vestmannaeyingum sem bitu í skjaldarrendur eftir svakalegar heitstrengingar Ingvars Jóhannessonar og Þorsteins Þorsteinssonar svo að undir tók í Heimakletti. Jafnt var á 5 borðum, Cheparinov lagði Grandelius á 1. borði, Henrik Danielsen jafnaði metin fyrir TV með sigri á Stefáni Kristjánssyni og Ingvar Jóhannesson vann nokkuð óvæntan sigur á Þresti Þórhallssyni. Úrslit: 4½-3½ TV í vil. Ókyrrðist Hermann formaður við úrslitin og setti dreyrauðan. Kastaði formaðurinn fram fyrriparti þessum og skipaði liðsstjóra að botna:

Illa tefla tittir lúnir
trauðla skil ek vanda þann.

Liðsstjóri hikstaði upp þessum botni:

Nýjum verða krafti knúnir
kallist aftur landa bann.

Formaðurinn vissi upp á sig skömmina því að hér fór liðsstjóri fram á að hann afturkallaði hið illa ígrundaða bann við landadrykkju sem hann hafði komið á fyrir mótið. Voru liðsmenn orðir vanir því að dreypa aðeins á elexírnum á hverju kvöldi til að róa þreyttar taugar og endurnýjast að baráttuanda. Hermann sá nú að sér, bannið var snarlega afnumið og keppendur tóku gleði sína á ný.

Á meðan a-liðið tapaði fyrir TV, kom b-lið Hugins á óvart með sigri á snörpu liði Fjölnis, 4½ – 3½. Bar þar hæst glæstan sigur viðskiptajöfursins geðþekka, Hlíðars Þórs Hreinssonar, á alþjóðlega meistaranum Thomas Hendriks (2492). Í fjórðu umferð vann a-lið Hugins svo átakalítinn sigur á fráfarandi meisturum, Víkingaklúbbnum, 7-1, en b-liðið tapaði 2½-5½ fyrir Akureyringum þar sem stórsöngvarinn Sæberg Sigurðsson hélt uppi heiðri Hugins með sigri á sjálfum Gylfa Þórhallssyni.

Að lokum erfiðum laugardegi kallaði formaður menn sína saman, bar fram Lyngbrekkulandann magnaða, ásamt áfum, mysu og ólekju, og eggjaði keppendur til dáða fyrir viðureignina mikilvægu við TR að morgni.

Að landa sigri

Liðsmenn Hugins vöknuðu endurnærðir í morgunsárið og var a-sveitinni ekkert að vanbúnaði að takast á við við firnasterkt lið TR. Flestar skákirnar voru tvísýnar lengst af og ógerlegt að spá fyrir um úrslit en stríðsgæfan féll Hugins megin að lokum. Hjörvar Steinn lagði Jakob Vang Glud, Stefán Kristjánsson sigraði Guðmund Kjartansson og Þröstur Þórhallsson sneri á Arnar Gunnarsson. Á neðsta borði tapaði Einar Hjalti fyrir Margeiri Péturssyni eftir vænlegt tafl. Öðrum skákum lauk með jafntefli þannig að niðurstaðan varð 5-3 Hugin í vil. Fékk hugtakið að landa sigri þar með nýja merkingu í íslenskri skáksögu.

Á meðan skiptu Huginn-b og Skákfélag Reykjanesbæjar með sér vinningum, 4-4, í mesta bróðerni. Að fyrri lotu lokinni var Huginn-a með 28 ½ vinning í efsta sæti, TR með 28 vinninga og TV í 3. sæti með 27 ½ vinning.

Síðari hálfleikur

Síðari lota Íslandsmótsins hófst á góu 2015. Í 6. umferð vann A-sveit Hugins sigur á öllum borðum gegn Skákfélagi Íslands, þrátt fyrir mikla mótspyrnu þeirra síðarnefndu. B-sveit félagsins laut í lægra haldið gegn ofursveit TR, 7-1. Hugnismenn stóðu þar lengi betur á nokkrum borðum en reynsla TR-inga sagði til sín á lokasprettinum. Sú undantekning var þó á að Baldur Kristinsson tefldi skák lífs síns gegn Margeiri Péturssyni. Staðan í lok miðtafls var flókin en Baldur hélt frumkvæði sínu og yfirvegun í æsilegu tímahraki og því fór sem fór.

Í 7. umferð lagði A-sveit Hugins Fjölni 6-2. Robin van Kampen, Hjörvar Steinn, Stefán og Lenka unnu sínar skákir en Gawain Jones, Magnús Örn, Einar Hjalti og Hlíðar Þór gerðu jafntefli. Einna mesta athygli vakti skák Gawains og Héðins Steingrímssonar þar sem Héðinn bauð tvisvar jafntefli snemma tefls en Gawain, sem er afkomandi Ríkharðs þriðja hins uppgrafna og endurjarðsetta í beinan karllegg, þrálék í lokin. B-sveitin tapaði 2½ – 5½ fyrir Bolvíkingum í athyglisverðri viðureign. Sigurður Sæberg, Ögmundur Kristinsson og Lárus Knútsson héldu jöfnu við stigahærri andstæðinga og Pálmi Pétursson var mjög nærri því að ná hagstæðum úrslitum gegn Jóhanni Hjartarsyni. Gunnar Björnsson lagði Magnúsi Pálma Örnólfsson af listfengi en Gunnar mun vera birgastur allra liðsmanna Hugins af Lyngbrekkulanda eftir tíðar ferðir norður yfir heiðar.

Í 8. umferð bar A-sveit Hugins sigurorð af Akureyringum 6½-1½. Gawain, Robin, Hjörvar, Stefán, Þröstur og Magnús Örn sigruðu sína andstæðinga, Einar Hjalti gerði jafntefli en Helgi Áss tapaði óvænt fyrir baráttujaxlinum sókndjarfa Stefáni Bergssyni. Bar Helgi Áss því við að hann hefði ruglað saman tveimur lausavísum Hermanns bónda um strategíska áætlanagerð og tók formaðurinn þá útskýringu góða og gilda. B-sveit félagsins tapaði 7-1 gegn hörkugóðri sveit TV þar sem Gunnar Björnsson gekk fram fyrir skjöldu Huginsmanna með sigri á bóksalanum snjalla og stigaháa, Sigurbirni Björnssyni.

Spennandi lokaumferð

Fyrir lokaumferð Íslandsmótsins hafði Huginn aðeins hálfs vinnings forskot á Taflfélag Reykjavíkur eftir stórsigur TR á Bolvíkingum 7½-½. TV var skammt undan, 1½ vinningi á eftir TR og spennan því í hámarki.

Í 9. og síðustu umferð atti Huginn-a kappi við Skákfélag Reykjanesbæjar. Suðurnesjamenn börðust vel að vanda en urðu að láta undan síga gegn ofureflinu. Þegar tveimur skákum var ólokið varð ljóst með hliðsjón af viðureign TR við Fjölni þar sem Fjölnismenn náðu þremur jafnteflum, að Hugin dygði jafntefli í annarri skákinni. Samdi Þröstur Þórhallsson því um skiptan hlut við skákkennarann knáa Siguringa Sigurjónsson og fyrsti Íslandsmeistaratitill Skákfélagsins Hugins var í höfn.

Þakkir

Huginsmenn þakka andstæðingum sínum drengilega og skemmtilega keppni. Sérstaklega var til fyrirmyndar hve vel helstu keppinautar Hugins brugðust við úrslitunum og verður það í minnum haft þegar kemur að Huginsmönnum að hylla aðra Íslandsmeistara síðar á þessari öld. Sérstaklega senda Huginsmenn vinum sínum í Taflfélagi Reykjavíkur heillaóskir með glæsilegan árangur í 2.-4. deild og bjóða nýliða TR-b og KR velkomna í efstu deild. Að lokum skal þakka skákforystunni og starfsmönnum mótsins góða umsýslu og Helga Árnasyni lánið á vistlegum húsakynnum Rimaskóla og brosandi ungmennum með góðar veitingar og þjónustulund.

Jón Þorvaldsson