Hermann Aðalsteinsson - Formaður
2010-10-06 20.32.27
Feðgaslagur – Jón Aðalsteinn Hermannsson mætir Hermanni föður sínum.

Janúarmót Hugins á norðursvæði hófst í dag. Fyrirkomulag mótsins er þannig að keppendum var skipt í tvo riðla, austur- og vesturriðil og var að mestu miðað við búsetu félagsmanna. Tefldar eru sjö umferðir, allir við alla í hvorum riðli og svo mætast að lokum efstu tveir, þeir sem voru í öðru sæti o.s.frv, í alsherjar skákveislu.

Keppendur koma af gervöllu norðurlandi, allt frá Siglufirði austur á Raufarhöfn! geri aðrir betur 🙂

2010-10-06 15.29.28
Frá vinstri: Sigurbjörn Ásmundsson, Rúnar Ísleifsson, Jakub og Hjörleifur.

Fyrstu tvær umferðirnar fóru fram í dag í hvorum riðli. Óvænt úrslit léku hlutverk í dag í vesturriðli þegar leiðtogi vor og lærimeistari Hermann Aðalsteinsson (1342) gerði sér lítið fyrir og gerði jafntefli við Hjörleif Halldórsson (1920) frá Akureyri. Vel gert hjá Hermanni! Sjóarinn síkáti, Heimir Bessason (1478) átti einnig góðan dag í austur þegar honum tókst að halda jöfnu gegn hraðskákmeistaranum Smára Sigurðssyni (1905).

Önnur úrslit voru að mestu eftir bókinni.

Sighvatur Karlsson og Sigurður Daníelsson eiga inni frestaðar skákir í austur sem geta haft áhrif á stöðu efstu manna.

Eftir umferðirnar tvær eru Rúnar Ísleifsson og Ármann Olgeirsson efstir með fullt hús í vesturriðli og Tómas Veigar Sigurðarson einn efstur í austurriðli með fullt hús.