Skákfélagið Goðinn hefur heldur betur vaxið og dafnað á árinu 2022. Þó nokkrir hafa bæst við félagatalið sem stendur í 73 um áramót. Goðinn er 11 stærsta/fjölmennasta skákfélag landsins ef miðað er við virk félög og ýmislegt bendir til þess að félagið eigi bara eftir að stækka. Það er mjög svo ánægjulegt.

 

Markmið félagsins hefur alltaf verið að halda úti skákstafi í Þingeyjarsýslu og hefur það tekist nokkuð vel. Við höldum reglubundin skákmót yfir vetrartímann og erum einnig með skákæfingar. Auðvitað eru mótin og æfingar mis vel sótt og ekki eiga allir auðvelt með að koma á öll möguleg mót vegna vegalengdar eða vinnu. En það eru nógu margir félagsmenn virkir og þó svo að nokkrir komist ekki í sum mótin eru alltaf nægilega margir sem mæta til að gera hvert og eitt mót skemmtilegt og nægilega fjölmennt. Það er mikilvægt.

Það eru þó tvö árleg mót sem sérstaklega er smalað í og allt gert til þess að ná sem flestum. Þetta eru Skákþing Goðans/meistaramót og síðan Íslandsmót Skákfélaga. Það má segja að heimtur hafi verið mjög góðar þegar smalað var fyrir Íslandsmót Skákfélaga í október sl. 16 skákmenn tóku þátt í mótinu fyrir Skákfélagið Goðann. Árangurinn varð þó undir væntingum en síðari hlutinn fer fram í mars 2023 og þá verður hægt að gera betur.

Skákþing Goðans/Meistaramót 2023 fer fram um miðjan janúar 2023 og er skráning þegar hafin í það mót. Vonir standa til þess að það verði fjölmennt mót, en það verður 20 skákþing Goðans frá upphafi. Skákfélagið Goðinn var þó formlega ekki stofnað fyrr en 15 mars 2005, en fyrsta skákþingið fór fram í apríl 2004. Hér má lesa nánar um stofnun Goðans

Heimasíðan Goðans sem Tómas Veigar Sigurðarson á heiðurinn af, hefur tekið talsverðum breytingum á árinu 2022. Þær kanski ekki sjáanlegar en ef betur er að gáð má sjá mikið af nýju efni.

Titilhafar

Undir þessum flipa má skoða alla titilhafa félagsins frá stofnun þess. Þar má einnig skoða öll mótaúrslit, með stöðutöflu og link inn á frétt um viðkomandi mót þegar það fór fram. Einnig má finna þarna til viðbótar ýmsan fróðleik um mótahald og lista yfir alla sem hafa teflt á móti hjá Goðanum. Það er reyndar ekki búið að uppfæra þennan lista á þessu ári.

Skákstig

Þarna má skoða lifandi skákstiga lista allra félagsmanna Goðans sem hafa unnið sér inn fide skákstig, eða hafa fengið fide-kennitölu. Þetta eru 3 listar. Kappskákstig, Atskákstig og Hraðskákstig. Einnig má skoða skákstig allra Íslendinga sem hafa skákstig, eftir skákfélögum. Allir þessir listar uppfærast sjálfkrafa um hver mánaðarmót, þegar FIDE uppfærir stigalistana. Sjá má sýnishorn af þessum listum hér til hægri á forsíðunni.

Skákasafn

Skákir félagsmanna Goðans er það nýjasta á vefnum. þarna má finna nú þegar hundruðir skáka sem hafa verið tefldar á hinum ýmsu mótum í gegnum tíðina. Þarna má td. skoða skákir úr eldri mótum Goðans og er verið að vinna að því að slá inn skákir úr flest öllum tiltækum mótum Goðans frá upphafi, sem að voru kappskákmót. Ekki voru öll skákþing Goðans kappskákmót. Hver og einn félagsmaður á síðan sína sér síðu þar sem hægt er að skoða skákir viðkomandi. Sumir hverjir eiga margar skákir sem hafa verði innslegnar á PGN-formi. Aðrir eru ekki komnir með margar eða jafnvel engar enn sem komið er og hvetur formaður þá til að slá inn sínar uppáhalds skákir og senda inn til birtingar.

Skákfélagið Goðinn óskar félagsmönnum sínum gleðilegs nýs árs með þökkum fyrir það gamla. Hér fyrir neðan er myndasýning með helstu afrekum okkar manna.