Það segir margt um hversu vel Nóa Síríus-mótið er skipað að aðeins einn keppandi hefur fullt hús eftir tvær umferðir. Guðmundur Gíslason er efstur á mótinu en hann lagði alþjóðlega meistarann Björn Þorfinnsson að velli eftir að hafa snúið á hann í verri stöðu.

Skákunum á 1.-3. borði lauk öllum með jafntefli og eru hvorki meira né minna en 12 keppendur jafnir í 2.-13. sæti með 1½ vinning.

Ingvar Þór Jóhannesson og Stefán Kristjánsson gerðu stutt jafntefli sem og Björgvin Jónsson og Karl Þorsteins. Guðmundur Kjartansson reyndi lengi að kreista fram sigur gegn Degi Ragnarssyni en tókst ekki og jafntefli samið eftir miðnætti í gær.

Þröstur Þórhallsson vann Jón Trausta Harðarson með glæsilegri mannsfórn. Vignir Vatnar Stefánsson sýndi að sigurinn á Birni þorfinnssyni var engin tilviljun og gerði jafntefli við Sigurð Daða Sigfússon.

Þriðja umferð fer fram fimmtudagskvöldið. Þá situr Guðmundur Gíslason yfir. Stefán Kristjánsson teflir við Björgvin Jónsson, Ingvar Þór og Guðmundur Kjartansson mætast og Karl teflir við Þorstein Þorsteinsson sem vann Björgvin Víglundsson á laglegan hátt á gær. Dagur Ragnarsson fær það erfiða verkefni að mæta Þresti Þórhallssyni.

Tveir aðrar viðureignir er sérstaklega vert að nefna. Vignir Vatnar teflir við Andra Áss sem og akureysku goðsagnirnar Stefán Bergsson og Halldór Brynjar Halldórsson mætast.

Nánar á Chess-Results.

B-flokkur

Hart er barist í b-flokki. Eftir fjórar umferðir eru þeir Dagur Andri Friðgeirsson, Snorri Þór Sigurðsson, Guðmundur Kristinn Lee og Bárður Örn Birkisson efstir með fullt hús. Snorri Þór vann stigahæsta keppendann Harald Baldursson í lengstu skák gærdagins.

Nánar á Chess-Results

[dt_divider style=”thick” /]