Skemmtilegur andi, hörð barátta og snilldartilþrif settu svip sinn á 1. umferð Nóa Siríus mótsins – Gestamóts Hugins og Breiðabliks – sem hófst í gær í Skákmusterinu á Kópavogsvelli. Keppendur skerptu einbeitinguna og leikgleðina með ljúfmeti frá Nóa Siríusi og Þorvarður F. Ólafsson kom færandi hendi með nýbakaða heimsmeistaratertu. Úrslitin spegla sterkt mót þar sem jafntefli voru tíð.

20160107_200802
Hin björtu húsakynni Skákmusterisins

Í A-flokki var stigamunur á keppendum nálægt 200 stigum sem er auðvitað uppskrift að miklum sviptingum. Óvæntustu úrslitin voru sigur Hrafns Loftssonar (2164) á FM Davíð Kjartanssyni (2363). Athygli vakti að Björgvin Víglundsson (2203) knúði fram jafntefli gegn stórmeistaranum Þresti Þórhallssyni (2423), Örn Leó Jóhannsson (2157) hélt jöfnu við FM Sigurð Daða Sigfússon (2317), Magnús Teitsson (2143) hélt sínu gegn FM Sigurbirni Björnssyni (2300), Hrannar Arnarsson (2093) og Andri Áss Grétarsson (2287) sættust á skiptan hlut og sömu sögu er að segja af Jóni Trausta Harðarsyni (2059) og Kristjáni Eðvarðssyni (2235).

 

20160107_200636
Æskan og viskan

Sérstaka athygli vakti viðureign elsta og yngsta keppandans í A-flokki, hins margreynda kappa Jóns Kristinssonar (2240) og ungstirnisins Vignis Vatnars Stefánssonar (2071) sem skildu jafnir. Önnur úrslit í A-flokki voru eftir bókinni. Í B-flokki bar Kristófer Gautason (1653) sigurorð af Birni Hólm Birkissyni (1962) en önnur úrslit voru á þá leið að sigahærri unnu þá stigalægri.

Dregið hefur verið í 2. umferð og stefnir í margar magnaðar viðureignir:

A-flokkurinn á Chess-results

B-flokkurinn á Chess-results

 

Heimsmeistaratertan hans Varða
Heimsmeistaratertan hans Varða

 

 

 

 

 

 

 

 

 

20160107_201059
Hluti keppenda í B-flokki